Innlent

Sló son sinn í­trekað með belti

Bjarki Sigurðsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm sinn í síðustu viku.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm sinn í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi karlmann í síðustu viku í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot í nánu sambandi með því að beita son sinn ítrekuðum og endurteknum líkamlegum refsingum. Maðurinn sló son sinn með belti, ýmist á bak, rass, maga, eða iljar hans. 

Maðurinn játaði brot sitt en ekki kemur fram í dómnum á hversu löngu tímabili maðurinn beitti son sinn ofbeldi. Ásamt því að slá hann með beltinu hótaði hann honum í önnur skipti að slá hann með áðurnefndu belti. 

Voru afleiðingar síðustu atlögu mannsins með beltinu þær að sonurinn hlaut áverka á vinstri lendarhrygg. 

Maðurinn hafði ekki verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot áður en hann gekkst undir sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar árið 2013.

Dómi þótti hæfileg refsing fimm mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingu og fellur hún niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorði. Þá þarf maðurinn að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 662.904 krónur. 

Dóminn má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×