Allt jafnt fyrir stórleikinn á Old Trafford Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 16. febrúar 2023 19:42 Marcus Rashford skorar fyrra mark United í kvöld. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images Barcelona og Manchester United áttust við í fyrri viðureign liðanna í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 2-2 og því verður allt undir þegar liðin mætast á Old Trafford í seinni leiknum að viku liðinni. Þrátt fyrir nokkur hálffæri í fyrri hálfleik tókst hvorugu liðinu að finna netmöskvana og því var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja. Markaþurrðin varði þó ekki lengi í síðari hálfleik því Marcos Alonso kom heimamönnum í Barcelona í forystu á 50. mínútu eftir stoðsendingu frá Raphinha áður en Marcus Rashford jafnaði metin fyrir United aðeins þremur mínútum síðar. Gestirnir frá Manchester voru svo búnir að taka forystuna á 59. mínútu leiksins þegar Jules Kounde verð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Kounde var þó einnig á ferðinni á hinum enda vallarins þegar hann lagði upp jöfnunarmark Börsunga fyrir Raphinha rétt tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok og þar við sat. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli í stórskemmtilegum leik. Eins og áður segir mætast liðin á ný á Old Trafford að viku liðinni og þá kemur í ljós hvort liðið tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fótbolti Evrópudeild UEFA
Barcelona og Manchester United áttust við í fyrri viðureign liðanna í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 2-2 og því verður allt undir þegar liðin mætast á Old Trafford í seinni leiknum að viku liðinni. Þrátt fyrir nokkur hálffæri í fyrri hálfleik tókst hvorugu liðinu að finna netmöskvana og því var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja. Markaþurrðin varði þó ekki lengi í síðari hálfleik því Marcos Alonso kom heimamönnum í Barcelona í forystu á 50. mínútu eftir stoðsendingu frá Raphinha áður en Marcus Rashford jafnaði metin fyrir United aðeins þremur mínútum síðar. Gestirnir frá Manchester voru svo búnir að taka forystuna á 59. mínútu leiksins þegar Jules Kounde verð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Kounde var þó einnig á ferðinni á hinum enda vallarins þegar hann lagði upp jöfnunarmark Börsunga fyrir Raphinha rétt tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok og þar við sat. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli í stórskemmtilegum leik. Eins og áður segir mætast liðin á ný á Old Trafford að viku liðinni og þá kemur í ljós hvort liðið tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.