Erlent

Musk metur mar­traða­spá Med­vedev mark­lausa

Bjarki Sigurðsson skrifar
Musk segir spána vera fáránlega.
Musk segir spána vera fáránlega. Getty/Michael Gonzalez

Dmitry Medvedev, náinn bandamaður Vladimír Pútín og fyrrverandi forseti Rússlands, birti í gær sína spá fyrir árið 2023. Margt í spánni mætti flokka sem galið en meðal þeirra sem svöruðu forsetanum fyrrverandi var Elon Musk, forstjóri Twitter. Hann sagði spána vera þá fáránlegustu sem hann hefur á ævi sinni heyrt. 

Um er að ræða tíu hluti sem Medvedev spáir því að munu gerast á næsta ári. Meðal þess sem hann spáir er að Bretland gangi aftur í Evrópusambandið, borgarastyrjöld brjótist út í Bandaríkjunum, Elon Musk verði forseti Bandaríkjanna og fleira.

Musk sjálfur svaraði þessari færslu Medvedev nokkrum sinnum. Fyrsta sem hann gerði var að segja að um væri að ræða „epískan þráð“. Því næst svaraði hann færslunni þar sem Medvedev sagði hann vera næsta forseta Bandaríkjanna með því að setja inn tjákn (e. emoji) af manni sem var hissa. 

Næst merkti hann þjark sem minnir fólk á Twitter-færslu einhverju síðar og bað þjarkinn um að minna sig á færsluna einu ári síðar. 

Nokkrum tímum síðar svaraði hann sjálfum sér og sagði spána vera þá fáránlegustu sem hann hafði nokkurn tímann séð. 

„Spáin sýnir einnig undraverðan skort þekkingar á framförum gervigreindar og sjálfbærrar orku,“ skrifaði Musk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×