Fótbolti

Lands­liðs­þjálfarinn segist ekki vera á móti gagn­rýni ef hún er byggð á þekkingu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson tók við sem þjálfari A-landsliðs karla af Svíanum Erik Hamrén í lok árs 2020.
Arnar Þór Viðarsson tók við sem þjálfari A-landsliðs karla af Svíanum Erik Hamrén í lok árs 2020. Juan Manuel Serrano/Getty Images

Það hefur ekki verið nein lognmolla í kringum íslenska karlalandsliðið í fótbolta síðan Arnar Þór Viðarsson tók við því árið 2020. Ásamt vandamálum utan vallar þá hefur liðið legið undir gagnrýni fyrir spilamennsku sína.

Arnar Þór var í ítarlegu viðtali á Morgunblaðinu þar sem hann fór yfir hvað hefur drifið á daga sína síðan hann tók við landsliðinu. Hann fer yfir gagnrýnina sem liðið, og spilamennska þess, hefur fengið sem og hvernig fyrirsagnir hjá fjölmiðlum eru settar upp.

„Hef ekkert á móti gagnrýni ef það er einhver þekking á bak við hana,“ segirArnar Þór í viðtali sínu við Morgunblaðið. Hann segir þó að slík gagnrýni verði að vera málefnaleg.

„Því miður er það þannig í dag, í samfélaginu sem við búum í, að gagnrýnin er oft byggð á tilfinningum eða einhverju öðru undirliggjandi.“ Slíkri gagnrýni segist Arnar Þór ekki geta tekið alvarlega.

Arnar Þór fer einnig yfir breytingar á landsliðshópnum og nefnir að undir lok síðasta árs hafi leikmenn með samtals í kringum 700 A-landsleiki horfið á braut. Hann nefnir að það taki leikmann um áratug að safna 70 A-landsleikjum: „Þeir sem kunna að reikna og skilja fótbolta gera sér grein fyrir því að verkefnið hef­ur verið ansi stórt.“

Þá tjáir landsliðsþjálfarinn sig um fyrirsagnir fjölmiðla og segir að neikvæðar fyrirsagnir selji einfaldlega betur en jákvæðar.

Viðtalið í heild sinni má finna í Morgunblaðinu en búta úr því má lesa á íþróttavef mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×