Fótbolti

Ís­land niður um eitt sæti og heims­meistararnir komust ekki á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið átti erfitt ár en endaði það á titli.
Íslenska karlalandsliðið átti erfitt ár en endaði það á titli. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu endar árið 2022 í 63. sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Sigurinn í Eystrasaltsbikarnum náði ekki að skila íslensku strákunum hærra sæti á listanum því liðið fellur úr 62. sæti niður í það 63. milli lista.

Þetta er lægsta staða íslenska landsliðsins í árslok á FIFA-listanum í tíu ár eða síðan árið 2012 þegar liðið sat í 90. sæti í árslok.

Athygli vekur að nýkrýndir heimsmeistarar Argentínu ná ekki að taka toppsæti listans af Brasilíu, sem datt út í átta liða úrslitum á HM í Katar.

Brasilíumenn halda efsta sæti listans en Argentínumenn far upp um eitt sæti. Belgar falla úr öðru sæti niður í það fjórða og missa því bæði Argentínu og Frakkland (3. sæti) upp fyrir sig. England er áfram í fimmta sæti.

Danir þurfa að sætta sig að detta niður um átta sæti, fara út af topp tíu og sitja nú í 18. sæti. Króatar komast inn á topp tíu í staðinn með því að fara upp um fimm sæti og alla leið í sjöunda sætið.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart en spútniklið Marokkó hækkar sig mikið á listanum en liðið fór alla leið í undanúrslitin á HM. Marokkó fer upp um ellefu sæti og upp í ellefta sæti. Marokkóbúar hafa farið alls upp um sautján sæti frá því á sama tíma fyrir ári síðan.

Gambía hækkar sig mest á árinu eða alls um 24 sæti en líkt og Marokkó þar fóru Kosta Ríka og Kamerún líka upp um sautján sæti á þessu eina ári.

Ástralar taka líka mikið stökk á listanum en þeir sitja nú í 27. sæti eftir ellefu sæta stökk. Kamerún fór upp um tíu sæti og upp í 33. sæti síðan á listanum í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×