Innlent

Fjórir til viðbótar í gæsluvarðhald og rúmlega tíu í felum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Myndin er tekin fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í gærkvöldi þegar fimm voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. 
Myndin er tekin fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í gærkvöldi þegar fimm voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.  Vísir/Ívar

Þeir fjórir sem lögregla handtók í nótt í tengslum við rannsókn á hnífstunguárás sem var gerð á Bankastræti Club síðasta fimmtudagskvöld voru rétt í þessu úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Alls eru nú níu í gæsluvarðhaldi en lögregla hefur sleppt hinum fimm sem hún hefur handtekið við rannsóknina úr haldi. 

Héraðsdómur féllst í gær yfir gæsluvarðhald fimm manna á þrítugsaldri. Tveir þeirra hlutu vikulangt varðhald en hinir þrír tveggja vikna gæsluvarðhald. Þeir sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í dag hlutu allir tvær vikur. 

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við fréttastofu. 

Samtals hefur lögregla handtekið fjórtán í tengslum við málið. Fimm hefur verið sleppt, þar af tveimur konum. Þær eru ekki grunaðar um að hafa tekið beinan þátt í árásinni; Margeir segir að allir sem hafi ráðist inn á skemmtistaðinn hafi verið karlmenn í kring um tvítugt til þrítugt. 

Ríflega tíu er enn leitað vegna málsins. Menn sem Margeir segir að séu í felum. 

„Í heildina erum við að leita að 25 til 27 manns. Við erum komin með núna inn sem við teljum tengjast beint þessari árás níu manns. Og eins og ég segi við bara höldum áfram að sækja þá sem þarna eiga hlut að máli,“ segir Margeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×