Erlent

Biden segir ó­lík­legt að flug­skeytinu hafi verið skotið frá Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden átti fund með leiðtogum G7 og Nató á Balí í gær.
Biden átti fund með leiðtogum G7 og Nató á Balí í gær. AP/The New York Times/Doug Mills

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir ólíklegt að flugskeyti sem varð tveimur að bana í Póllandi hafi komið frá Rússlandi og vísar til brautar flugskeytisins. Aðspurður vildi hann hins vegar ekkert fullyrða um málið og sagðist vilja bíða og sjá.

Biden, sem er enn staddur á fundi G20-ríkjanna á Balí, sagði Bandaríkjamenn styðja rannsókn Pólverja á atvikinu og sagði þá staðráðna í að komast að því hvað átti sér stað. 

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagðist taka afneitun Rússa um að bera ábyrgð á sprengingunni alvarlega og sagði líklega um að ræða „tæknilega villu“. Hann hefði fundað með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands um málið, og menn virtust almennt vera á því að flugskeytið væri ekki rússneskt.

Leiðtogar G7-ríkjanna áttu neyðarfund um málið í gærkvöldi, auk leiðtoga Hollands, Spánar og Evrópusambandsins. Mikið er í húfi, þar sem árás á aðildarríki Atlantshafsbandalagsins myndi kalla á sameiginleg viðbrögð allra bandalagsríkjanna.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær um alvarlega stigmögnun að ræða. Utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba hefur hafnað „samsæriskenningum“ þess efnis að um hafi verið að ræða flugskeyti úr loftvarnakerfum Úkraínu. 

Bæði Andrzej Duda, forseti Póllands, og forsætisráðherrann Mateusz Morawiecki hafa hvatt menn til að halda ró sinni og vara sig á falsfréttum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda um málið síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×