Innlent

Gervi­limur skilinn eftir í Hopp-deili­bíl

Bjarki Sigurðsson skrifar
Limurinn fannst í hanskahólfi bifreiðarinnar.
Limurinn fannst í hanskahólfi bifreiðarinnar. Hopp

Bleikur gervilimur fannst í hanskahólfi Hopp-deilibíls í gær. Eigandinn hefur enn ekki gefið sig fram en framkvæmdastjórinn segir fundinn vera þann skemmtilegasta hingað til. 

Rafskútu- og deilibílaleigan Hopp birti í gær mynd á Twitter af bleikum gervilim sem hafði fundist í hanskahólfi bifreiðar þeirra. Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir að hingað til hafi ekki svo skemmtilegur hlutur fundist í bifreiðum þeirra áður. 

„Eigandinn hefur ekki gefið sig fram. Því miður. Það vill enginn kannast við kauða. Við höfum ekki lent í svona skemmtilegu áður. En við finnum ýmislegt. Föt, hrísgrjón, ljósaperur. Svo fullt af heyrnartólum og snúrum en þetta stendur klárlega upp úr,“ segir Sæunn í samtali við fréttastofu. 

Hún segir starfsmenn gruna að einhver hafi skilið liminn eftir til að grínast í fólkinu hjá Hopp. Sæunn segir það vera gott að viðskiptavinir þeirra hafi góðan húmor. 

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, grínaðist með fundinn á Twitter og sagði að þarna hafi einhver verið að „rúnta“ sér í bílnum. Annar notandi sagði þetta væri gott viðskiptatækifæri, Hopp ætti að bjóða upp á „deilidildó“.

Á döfinni er mikil fjölgun á bílum hjá Hopp. Þeir eru sem stendur ellefu talsins en stefnt er á að þeir verði orðnir fimmtíu fyrir mars á næsta ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×