Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan-ÍR 33-28| Öruggur sigur Stjörnunnar á ÍR

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Stjarnan tekur á móti ÍR í kvöld.
Stjarnan tekur á móti ÍR í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan tók á móti ÍR í 8. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Stjarnan byrjaði leikinn af krafti og leiddi með ellefu mörkum í hálfleik , 21-10. ÍR-ingar mættu talsvert ákveðnari í seinni hálfleik og tókst að laga stöðuna en Stjarnan hleypti þeim aldrei of nálægt sér og sigruðu að lokum með fimm mörkum, 33-28.

Stjarnan byrjaði leikinn töluvert betur og tók forystuna strax á fyrstu mínútum leiksins. ÍR-ingar áttu talsvert erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og gekk þeim illa að koma sér almennilega inn í leikinn. Þegar stundarfjórðungur var liðin leiddi Stjarnan með fjórum mörkum 8-4. 

Í stöðunni 13-6 tók Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, leikhlé og stillti upp í sjö á sex. Það gekk ekki sem skildi og héldu Stjörnumenn áfram að vera með yfirhöndina út fyrri hálfleikinn. Hálfleikstölur 21-10. 

ÍR-ingar virtust hafa fengið orð í eyra frá Bjarni í hálfleik þar sem þeir mættu töluvert öflugri í seinni hálfleikinn. Þegar stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik var staðan 27-19 fyrir Stjörnunni. 

Áfram héldu ÍR-ingar að spila mun betur heldur en í þeim fyrri og náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar rúmlega tvær mínútur voru til leiksloka en misstu þá aðeins tökin og endaði leikurinn með fimm marka sigri Stjörnunnar 33-28.

Afhverju vann Stjarnan?

Þeir unnu leikinn í fyrri hálfleik. Þeir voru mun agaðri bæði sóknarlega sem og varnarlega heldur en ÍR og nýttu sér tæknifeila ÍR trekk í trekk. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Stjörnunni var Hergeir Gímsson atkvæðamestur með sex mörk. Þórður Tandri Ágústsson. Starri Friðriksson og Arnar Freyr Ársælsson voru allir með fimm mörk. Arnór Freyr Stefánsson kom inn á í vítum og varði tvö víti af fjórum og endaði því með 50% markvörslu. 

Hjá ÍR var Dagur Sverrir Kristjánsson atkvæðamestur með sjö mörk. Sveinn Brynjar Agnarsson var með sex mörk.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn hjá ÍR var ekki upp á marga fiska. Þeir voru óagaðir sóknarlega og spiluðu slakann varnarleik. Þeir voru í heildina með fjórtán tapaða bolta sem er alltof mikið á móti liði eins og Stjörnunni. Þeir voru betri í seinni hálfleik en þá var það orðið of seint. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 13. nóvember kl 19:30 sækir Stjarnan Selfoss heim. Mánudaginn 14. nóvember kl 19:30 taka ÍR-ingar á móti Aftureldingu. 

Bjarni Fritzson: „Þetta var ömurlegur fyrri hálfleikur og frábær seinni hálfleikur“

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR

„Við getum horft á hann svart og hvítt eða eins og Homblest, hrjúft og mjúkt. Þetta var ömurlegur fyrri hálfleikur og frábær seinni hálfleikur,“ sagði Bjarni Fritzson þjálfari ÍR, eftir fimm marka tap 33-28 á móti Stjörnunni í kvöld. 

ÍR-ingar áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og voru með mikið af tæknifeilum og töpuðum boltum. 

„Menn eru tilbaka, árásirnar eru veikar, það er hik. Þeir gera hlutina svolítið með hangandi hendi sérstaklega sóknarlega. Oft stoppum við þá ekki nógu mikið og erum að pressa á þá. Í raun og veru eins og þú sért hræddur að gera mistök eða hræddur við að tapa. Sem er kannski eðlilegt þegar þú ert búin að koma á óvart og svo búin að lenda í nokkrum skellum þá svona sjit, ég er á útivelli á móti Stjörnunni og ég verð að vanda mig. Þá fer allt í baklás og við erum að gera hrikalega lélega tæknifeila og þannig var fyrri hálfleikurinn.“

Það var allt annað að sjá ÍR í seinni hálfleik og var Bjarni gríðarlega sáttur með frammistöðu sinna manna á þeim kafla. 

„Ég var hálfri sekúndu að taka leikhlé til að reyna minnka í tvö eða þrjú þegar við misstum boltann en ég þarf að koma mér í betra form og vera sneggri. Þetta var stórkostlegur seinni hálfleikur og við einhvernveginn komum aðeins saman í klefanum og ræddum þetta og fórum yfir þetta. Einhvernveginn náðu þeir að hleypa kvikindinu í sjálfum sér út í seinni hálfleik og vera aðeins meira á milljón. Það gerist líka stundum þegar að þú ert búin að tapa leiknum, þá geturu let go.“

Bjarni vill að strákarnir mæti í næsta leik eins og þeir mættu í seinni hálfleikinn í kvöld. 

„Ég myndi gjarnan vilja að þeir myndu mæta eins og þeir mættu í seinni hálfleikinn. Eins og við vorum að gera í fyrstu leikjunum, bara svolítið cocky og áræðnir. Spila sinn leik eins vel og þeir geta, þannig bætum við okkur. Það býr hellingur í þessum strákum, að vera ellefu mörkum undir og ná nánast að komast inn í leikinn, það er mjög sterkt og sýnir að það er ýmislegt sem er til staðar.“


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira