Fótbolti

Gullskórnir sem Zidane lauk ferlinum í endurgerðir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gullskórnir sem Zinedine Zidane lék síðustu leikina á ferlinum í.
Gullskórnir sem Zinedine Zidane lék síðustu leikina á ferlinum í. getty/Sandra Behne

Íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur ákveðið að endurgera fræga skó sem Zinedine Zidane lauk ferlinum í.

Zidane spilaði í gulllituðum Adidas-skóm á HM 2006 sem var síðasta mót hans á ferlinum. Eftir að hafa verið rólegur í riðlakeppninni hrökk Zidane í gang í útsláttarkeppninni og leiddi Frakka í úrslitaleikinn gegn Ítölum. Og sá var eftirminnilegur í meira lagi fyrir Zidane.

Hann kom Frakklandi yfir með marki úr vítaspyrnu þegar hann vippaði boltanum í slá og inn. Hann var nálægt því að koma Frökkum yfir í framlengingunni en Gianluigi Buffon varði þrumuskalla hans. Síðan kom atvikið með stóru A-i á 110. mínútu.

Zidane skallaði þá Marco Materazzi, varnarmann Ítalíu, í bringuna. Argentínski dómarinn Horacio Elizondo rak Zidane af velli. Ógleymanlegt var þegar Zidane gekk framhjá heimsmeistarastyttunni á leið sinni af velli í síðasta leiknum á ferlinum. Ítalía vann svo í vítakeppni, 5-3. Zidane var samt valinn besti leikmaður HM.

Zidane var eitt af helstu andlitum Adidas og spilaði í mörgum frægum skóm frá fyrirtækinu, meðal annars þeim gulllituðu á HM 2006. Þeir verða endurgerðir fyrir HM í Katar sem hefst tuttugasta þessa mánaðar. Gullskórnir koma á markað 10. nóvember og talið er að þeir kosti rúmlega fimmtíu þúsund íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×