Fótbolti

Þrír slökkvi­liðs­menn létust á öryggis­æfingu fyrir HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þrir menn fyrir utan Al Thumama leikvanginn í Doha þar sem verður spilað á HM í næsta mánuði.
Þrir menn fyrir utan Al Thumama leikvanginn í Doha þar sem verður spilað á HM í næsta mánuði. EPA-EFE/NOUSHAD THEKKAYIL

Það styttist í heimsmeistaramótið í Katar en það hætta samt ekki að berast slæmir fréttir af gengi undirbúningsins fyrir keppnina.

Endalausar fréttir hafa verið um alla þá farandverkamenn sem hafa látist í aðdraganda keppninnar sem og alla hina sem hafa unnið þar við skelfilegar aðstæður við byggingu leikvanganna fyrir mótið.

Nú síðast fréttist aftur á móti af alvarlegu slysi á öryggisæfingu fyrir heimsmeistaramótið en slysið varð í höfuðborginni Doha.

Þrír slökkviliðsmenn frá Pakistan létust þá þegar krani sem þeir voru í hrundi til jarðar. Æfingin innihélt meðal annars að bregðast við aðstæðum eftir eiturefnaslys.

Fulltrúar frá fimmtán þjóðum tóku þátt í æfingunni eða frá Pakistan, Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Sádí Arabíu og Tyrklandi svo einhver séu nefnd.

Tyrkir leggja til þrjú þúsund lögreglumenn á mótið sem munu hjálpa til að halda uppi lögum og reglu á heimsmeistaramótinu.

Katarbúar hafa síðar reynt að halda því fram að mennirnir sem létust hafi ekki tekið þátt í æfingunni en svo kom hins vegar fram í fyrstu fréttum frá þeim.

HM í Katar hefst 20. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×