Erlent

Segir Pútín sýna rök­hugsun en hafa stór­kost­lega mis­reiknað stöðuna í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í viðtalinu sagði Biden einnig að það væri tímabært að endurskoða tengsl Bandaríkjanna og Sádi Arabíu, eftir að Sádi Arabía tók afstöðu með Rússum með því að samþykkja að draga úr olíuframleiðslu.
Í viðtalinu sagði Biden einnig að það væri tímabært að endurskoða tengsl Bandaríkjanna og Sádi Arabíu, eftir að Sádi Arabía tók afstöðu með Rússum með því að samþykkja að draga úr olíuframleiðslu. Getty/Drew Angerer

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir Vladimir Pútín Rússlandsforseta sýna rökhugsun en hann hafi hins vegar stórkostlega misreiknað þegar hann ákvað að ráðast inn í Úkraínu. Þá segir forsetinn hótanir Rússa um notkun kjarnorkuvopna mögulega geta leitt til hörmulegra mistaka.

Ummælin lét forsetinn falla í viðtali við CNN í gær en aðspurður sagði hann óábyrgt að tjá sig um það hvernig Bandaríkin og bandamenn myndu mögulega bregðast við ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.

Pútín hefði misreiknað dæmið þegar hann réðist inn í Úkraínu, haldandi að Rússum yrði tekið með opnum örmum. Biden sagðist þó ekki telja Rússlandsforseta myndu grípa til þess örþrifaráðs að nota kjarnorkuvopn en allt tal um notkun þeirra væri óábyrgt og gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér. 

Pútín gæti ekki haldið áfram að tala um notkun kjarnorkuvopna eins og notkun þeirra væri rökrétt.

Biden vildi ekki svara því hvar „rauða línan“ lægi en þegar hann var spurður að því hvort hermálayfirvöld í Pentagon hefðu verið beðin um að kanna öll möguleg viðbrögð sagði forsetinn að þess hefði ekki verið þörf og vísaði þannig til þess að möguleikinn á kjarnorkustríði væri alltaf til skoðunar.

Þá sagðist forsetinn ekki sjá tilgang með því að setjast niður með Pútín á næsta fundi G20-ríkjanna í Indónesíu í nóvember, nema þá mögulega til að ræða lausn körfuknattleikskonunnar Brittney Griner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×