Erlent

Mót­mælandi staðið á syllu á Big Ben frá því í morgun

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Maðurinn hefur komið sér fyrir á syllu mörgum metrum fyrir ofan jörðu og stendur þar með Palestínufána.
Maðurinn hefur komið sér fyrir á syllu mörgum metrum fyrir ofan jörðu og stendur þar með Palestínufána. AP

Lögreglan í Lundúnum hefur girt af svæðið kringum Westminsterhöll eftir að berfættur maður klifraði upp á syllu á Big Ben með Palestínufána.

Myndbönd sem hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum sýna berfættan manninn hátt uppi í loftinu á syllu á Elísabetarturni, klukkuturni í norðausturenda hallarinnar sem geymir Westminsterklukkuna og aðalbjölluna, sem er gjarnan kallaður Big Ben.

Slökkviliðsmenn í kranabíl reyna að ná til mannsins sem hefur verið í fjóra tíma á syllunni.AP

Fjöldi fólks hefur safnast í kringum svæðið til að fylgjast með manninum og eru að minnsta kosti níu lögreglubílar og kranabíll á vettvangi samkvæmt Guardian.

Samkvæmt talsmanni lögreglunnar barst henni tilkynning um manninn upp úr sjö í morgun og hefur hann því verið á syllunni í rúma fjóra tíma. 

Lögregluþjónar á vettvangi vinna nú að því að koma manninum niður með hjálp slökkviliðsmanna og annarra viðbragðsaðila.

Frelsun Palestínu og Filton-hópsins

Maðurinn hefur hrópað „Frjáls Palestína“ af syllunni og kallað eftir frelsun átján aðgerðarsinna, sem ganga undir nafninu Filton 18. 

Sex aðgerðasinnar keyrðu sendiferðabíl inn í vopnaverksmiðju Elbit Systems í Filton í Bristol í ágúst 2024 og eyðilögðu þar dróna og annan vopnabúnað Ísraela. 

Tjónið vegna skemmdarverkanna mun hafa verið um milljón punda (175 milljónir íslenskra króna) og voru sexmenningarnir handteknir í kjölfarið. 

Tólf aðrir aðgerðasinnar tengdir skemmdaverkunum voru síðan handteknir og hafa þau verið í haldi lögreglu síðan. Það sem meira er þá á að halda þeim í varðhaldi þar til mál þeirra fer fyrir dóm í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×