Fótbolti

Gamli leikmaður Aftureldingar skrifaði söguna með dótturina í fanginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes og Brittany Matthews saman á leik hjá Kansas City Chiefs.
Patrick Mahomes og Brittany Matthews saman á leik hjá Kansas City Chiefs. Getty/Jamie Squire

Margt hefur breyst í lífi Brittany Lynne frá því að hún spilaði með liði Aftureldingar í eitt sumar á Íslandi.

Brittany Matthews er nú Brittany Mahomes og eiginkona eins launahæsta og besta leikmanns NFL-deildarinnar, Patrick Mahomes.

Patrick Mahomes var óþekktur þegar hann eyddi mánuðum í Mosfellsbænum með kærustu sinni sumarið 2017 en hefur síðan orðið að einni allra stærstu íþróttastjörnunni í Bandaríkjunum.

Þau eiga eina dóttur saman, Sterling, og hún á núna von á þeirra öðru barni í byrjun næsta árs.

Þau hjónin hafa á þessum árum einnig eignast hlut í þremur íþróttafélögum á svæðinu eða Kansas City Royals (MLB, hafnarbolti), Sporting Kansas City (MLS, karlafótbolti), og Kansas City Current (NWSL, kvennafótbolti).

Um helgina skrifaði Brittany síðan söguna í Kansas City þegar hún tók fyrstu skóflustunguna að nýjum leikvangi fyrir kvennafótboltafélagið Kanasas City Current.

Brittany Matthews-Mahomes tilkynnti fyrst um hlut sinn í kvennafótboltaliðinu í desember 2020. Hún hefur síðan unnið að því að efla hag liðsins.

Þegar er búið að setja upp nýja fimmtán milljón dollara æfingaaðstöðu en um helgina voru fyrstu skóflustungurnar teknar af nýjum 117 milljón dollara leikvangi.

Þetta verður sögulegur leikvangur því hann er sá fyrsti sem er byggður sérstaklega fyrir félag í NWSL kvennadeildinni. Staðsetningin er líka frábær eða niður við ánna sem rennur í gegnum miðborg Kansas City.

„Skrifaði söguna með dóttur mína á mjöðminni. Þvílíkur dagur. Takk fyrir Kansas City,“ skrifaði Brittany Mahomes á samfélagsmiðla sína.

Brittany Matthews-Mahomes með skófluna og dóttur sína.Instagram/@brittanylynne



Fleiri fréttir

Sjá meira


×