Fótbolti

Guðlaugur Victor: Alltaf gott að spila með Aroni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson var ánægður með sigurinn í dag.
Guðlaugur Victor Pálsson var ánægður með sigurinn í dag. Getty/Alex Grimm

Guðlaugur Victor Pálsson lék sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd í langan tíma er liðið vann 1-0 sigur gegn Venesúela í vináttulandsleik í kvöld.

„Það var virkilega gaman,“ sagði Guðlaugur í samtali við Viaplay að leik loknum. „Skemmtilegt líka að koma til baka og vinna, það var mjög skemmtilegt. Það er langt síðan maður hefur unnið landsleik.“

Guðlaugur var ekki sá eini sem var að snúa til baka í landsliðið eftir langa fjarveru, en hann lék í hægri bakverði í dag með landsliðsfyrirliðan Aron Einar Gunnarsson, sem hafði ekki leikið með landsliðinu síðan í júní á seinasta ári, sér við hlið.

„Það er alltaf gott að hafa Aron og alltaf gott að spila með Aroni. Hann er mikill leiðtogi og hann hjálpar öllum og hjálpar mér. Ég reyni að hjálpa honum líka, ekki það að það þurfi svo sem.“

Mikil harka var oft á tíðum í leiknum og leikmenn Venesúela áttu það til að láta vel í sér heyra. Guðlaugur segir það ekki koma sér á óvart, enda séu suður-amerískir leikmenn oft á tíðum blóðheitir.

„Já, þeir eru svolítið í því. En ef maður er harður við þá þá eru þeir líka fljótir að missa hausinn og maður þarf að vera fastur á þeim. Þeir eru með heitt blóð.“

Eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik urðu leikmenn íslenska liðsins beittari eftir hlé, en Guðlaugur segir þó að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari liðsins, hafi ekki tekið neina stóra ræðu inni í búningsklefa.

„Nei, nei svo sem ekki. Það var bara farið yfir hluti sem við þurftum að gera aðeins betur. Þetta var náttúrulega leikur með ekki mjög mikið af færum og kannski ekkert það skemmtilegasta að horfa á hann. En bara mikilvægt fyrir okkur að halda hreinu og fengið sigur. Það er bara frábært fyrir sjálfstraustið í næsta leik og eins og allir vita þá er þetta búið að vera strembið og við höfum ekki unnið mikið af leikjum þannig að það er bara frábært fyrir okkur sem hóp að fá sigur og styrkja sjálfstraustið í hópnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×