Fótbolti

Samúel Kári til liðs við Viðar Örn og fé­laga í A­tromitos

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Samúel Kári ásamt umboðsmanni sínum Ólafi Garðarssyni (til vinstri) við undirskriftina.
Samúel Kári ásamt umboðsmanni sínum Ólafi Garðarssyni (til vinstri) við undirskriftina. Atromitos

Samúel Kári Friðjónsson er genginn í raðir gríska úrvalsdeildarfélagsins Atromitos. Hann hittir þar fyrir íslenska framherjann Viðar Örn Kjartansson.

Samúel Kári er uppalinn í Keflavík en þessi 26 ára miðjumaður hefur komið víða við til þessa. Hann fór ungur að árum til Reading á Englandi og þaðan hélt hann svo til Vålerenga í Noregi. Á lokaári sínu þar var hann lánaður til Viking áður en hann skrifaði undir hjá Paderborn 07 í Þýskalandi.

Hann stoppaði stutt við í Þýskalandi og gekk aftur í raðir Viking árið 2020. Samningur hans við norska félagið átti að renna út nú um áramótin og því ákvað Viking að taka tilboði Atromitos í leikmanninn. Keflvíkingurinn skrifar undir tveggja ára samning í Grikklandi.

Samúel Kári á að baki átta A-landsleiki fyrir Íslands hönd, sá síðasti kom árið 2019. Þá spilaði hann á sínum tíma 43 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Grikkland hefur verið nokkuð vinsæll áfangastaður íslenskra knattspyrnumanna í sumar. Alls leika nú fimm íslenskir leikmenn í deildinni. Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson er enn hjá Olympiacos, Hörður Björgvin Magnússon er hjá Panathinaikos og Guðmundur Þórarinsson er hjá OFI Crete.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×