Fótbolti

Carlsen var neyddur til að segja að Ronaldo væri í uppáhaldi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Carlsen er mikill stuðningsmaður Real Madrid en Cristiano Ronaldo er þó ekki í uppáhaldi.
Carlsen er mikill stuðningsmaður Real Madrid en Cristiano Ronaldo er þó ekki í uppáhaldi. EPA/Leszek Szymanski

Magnus Carlsen, fimmfaldur heimsmeistari í skák, sagði áhugaverða sögu í hlaðvarpsviðtali á dögunum. Hann segir fulltrúa Real Madrid ekki hafa tekið vel í þegar hann sagði Cristiano Ronaldo, þáverandi leikmann liðsins, ekki vera í uppáhaldi.

Carlsen er mikill fótboltaáhugamaður en hann hefur vakið athygli fyrir góðan árangur í Fantasy leik ensku úrvalsdeildarinnar. Hann hefur frá barnæsku verið stuðningsmaður Real Madrid og fer reglulega á Santiago Bernabeu í Madríd til að styðja sína menn.

Hann var spurður í hlaðvarpi á dögunum hvaða leikmann hann teldi vera þann besta í sögunni.

„Ég held að það sé erfitt að færa rök fyrir einhverjum öðrum en Messi, ef litið er á hans heildarleik. Hreinskilningslega þá hófst stuðningur minn við Real Madrid fyrir [Cristiano] Ronaldo-tímann, það er að segja seinni Ronaldo, en ekki þann fyrsta,“ segir Carlsen sem á þá við hinn brasilíska Ronaldo sem þann fyrri, en hann lék með Real Madrid frá 2002 til 2007.

„Mér líkaði alltaf við Ronaldo en mér þótti alltaf Messi vera betri. Ég fór á þónokkra leiki hjá Real Madrid og þar hefur alltaf verið tekið mjög vel á móti mér,“

„Það eina sem ég hef út á þá að setja er að þegar þeir tóku við mig viðtöl, spurðu þeir mig alltaf hver minn uppáhalds leikmaður væri, og ég nefndi einhvern annan, ég held ég hafi sagt Isco á þeim tímapunkti. Þá voru viðbrögðin: 'Ah, taka tvö - núna segir þú Ronaldo',“ segir Carlsen og hlær.

Sögu hans má heyra og sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×