Fótbolti

Unga stuðstelpan í stúkunni fékk gefins miða á úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi ungi stuðningsmaður enska kvennalandsliðsins hafði yfir miklu að fagna eftir 4-0 sigurinn í undanúrslitaleiknum í Sheffield. Þetta er þó ekki Tess sem sló í gegn í gengum sjónvarpsvélarnar í leikslok.
Þessi ungi stuðningsmaður enska kvennalandsliðsins hafði yfir miklu að fagna eftir 4-0 sigurinn í undanúrslitaleiknum í Sheffield. Þetta er þó ekki Tess sem sló í gegn í gengum sjónvarpsvélarnar í leikslok. Getty/Shaun Botterill

Ensku ljónynjurnar eru komnar alla leið í úrslitaleikinn á Evrópumótinu þar sem þær mæta Þýskalandi á Wembley á sunnudaginn.

England tryggði sér sitt sæti með 4-0 stórsigri á Svíþjóð og eftir leikinn vakti fögnuður ungrar stelpu mikla athygli.

Sú heitir Tess og fékk á sig myndavélarnar í leikslok þar sem hún söng og dansaði á meðan lagið „Sweet Caroline“ var spilað í hátalarakerfinu.

Í enska landsliðsbúningnum og dansandi af gleði þá vann hún hug og hjörtu bresku þjóðarinnar.

Enska kvennalandsliðið hefur heldur betur stolið sviðsljósinu og ungar stelpur eins og Tess eru nú komnar með frábærar fyrirmyndir sem ætti bara að auka hróður kvennaboltans í Englandi á næstu árum og áratugum.

Daginn eftir undanúrslitaleikinn voru fréttamenn BBC búnir að leita stelpuna uppi og fengu hana í viðtal í morgunþætti sínum ásamt ömmu sinni. Ian Wright ræddi við hana og hún var í stóru hlutverki í þættinum.

Tess sagði frá því að hún hafi ekkert gert sér grein fyrir því að hún væri í beinni útsendingu sjónvarpsins frá leik sem stór hluti þjóðarinnar var að fylgjast með.

„Við vorum í smá sjokki þegar við sáum hana á skjánum,“ viðurkenndi amma Tess.

Hápunkturinn var síðan þegar Tess var boðið á úrslitaleikinn og viðbrögðin hennar voru stórskemmtileg eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×