Fótbolti

Uwe Seeler látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Uwe Seeler lék allan sinn feril með Hamburg og er sannkölluð goðsögn hjá félaginu.
Uwe Seeler lék allan sinn feril með Hamburg og er sannkölluð goðsögn hjá félaginu. Getty/dpa

Þýski framherjinn Uwe Seeler er látinn, 85 ára að aldri. Hans er minnst sem eins af allra merkustu íþróttamönnum í sögu þýsku þjóðarinnar.

Seeler skoraði 43 mörk í 72 leikjum fyrir vestur-þýska fótboltalandsliðið og var fyrirliði liðsins í 40 leikjum. Hann lék á fjórum heimsmeistaramótum, meðal annars á HM 1966 þegar liðið varð í 2. sæti og á HM 1970 þegar liðið varð í 3. sæti. Seeler varð fyrstur í sögunni til að skora á fjórum heimsmeistaramótum.

Hann lék allan sinn feril með Hamburg og skoraði alls 490 mörk í 580 leikjum, á árunum 1954-1972. Seeler er markahæstur í sögu félagsins og var gerður að heiðursborgara í Hamborg árið 2003.

„Við munum aldrei gleyma honum og alltaf hafa hann í miklum metum,“ sagði Jonas Boldt, stjórnarmaður knattspyrnufélagsins Hamburg.

Uwe Seeler í landsleik gegn Frökkum árið 1958.Getty/dpa

„Uwe Seeler hafði allt sem prýða kann góða manneskju: Jarðbundinn, tryggur, lífsglaður og alltaf opinn fyrir samskiptum. Hann stendur fyrir allt sem HSV vill standa fyrir,“ sagði Boldt.

Seeler var í þrígang valinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi, á árunum 1960, 1964 og 1970, og varð í þriðja sæti í kjörinu um Gullknöttinn árið 1960.

Pele, sem lék á sömu fjórum heimsmeistaramótunum og Seeler, valdi Seeler árið 2004 sem einn af 125 bestu knattspyrnumönnum sögunnar sem enn væru á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×