Fótbolti

Markverðirnir sluppu loksins allar ómeiddar í gegnum æfingar liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir datt út rétt fyrir mót en kom aftur til móts við hópinn eftir aðgerð í Þýskalandi.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir datt út rétt fyrir mót en kom aftur til móts við hópinn eftir aðgerð í Þýskalandi. Vísir/Vilhelm

Það er mjög góð staða á leikmannahópi íslenska kvennalandsliðsins fyrir stóra prófið á móti Frökkum annað kvöld.

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson hefur byrjað blaðamannafundinn fyrir tvo síðustu leiki Íslands á EM í Englandi á því að segja frá óförum markvarða liðsins.

Tveir markverðir hafa nefnilega meiðst á æfingum rétt fyrir leiki liðsins, fyrst Cecilía Rán Rúnarsdóttir fyrir Belgíuleikinn og svo Telma Ívarsdóttir fyrir leikinn á móti Ítalíu.

Engir útileikmenn liðsins hafa verið að glíma við alvarleg meiðsli á þessu móti og markvarðarstaðan því hættulegasta staðan í liðinu.

Mjög leiðinlegt fyrir þær Cecilíu Rán og Telmu en á móti hafa þær Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving og Íris Dögg Gunnarsdóttir fengið tækifæri á að koma inn í hópinn í þeirra stað.

Sem betur fer kórónaði Þorsteinn ekki þrennuna í kvöld því hann slapp við það að segja fjölmiðlamönnum frá enn einum markmannsmeiðslunum á blaðamannafundi fyrir Frakklandsleikinn sem fer fram á morgun.

Þær þrjár sem eftir standa eru sem betur fer allar klárar í slaginn á móti Frökkum.

„Það eru allar heilar og allar klárar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson um stöðuna á leikmannahópnum og hann var einnig ánægður með líkamlegu stöðuna á leikmönnum.

„Mjög ánægður með það. Það eru allar raunverulega í góðu lagi og engin með eitthvað smáhnjask eða eitthvað svoleiðis. Allar í toppstandi,“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×