Fótbolti

Fyrsti sigur Þróttar Vogum í næstefstu deild

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þróttur Vogum vann langþráðan sigur. 
Þróttur Vogum vann langþráðan sigur.  Mynd/Þróttur Vogum

Þróttur Vogum hafði betur í fyrsta skipti í sögu félagsins í leik í næstefstu deild í fótbotla karla þegar liðið lagði nágranna sína, Grindavík, að velli með tveimur mörkum gegn engu í kvöld. Fjórir leikir fóru fram í 12. umferð deildarinnar í kvöld. 

Hans Kamta Mpongo sem gekk til liðs við Þrótt Vogum frá ÍBV á dögunum skoraði bæði mörk liðsins í þessum sögulega sigri. 

Fylkir tyllti sér á topp deildarinnar með sannfærandi 4-1 sigri gegn Kórdrengjum. Ásgeir Eyþórsson, Arnór Breki Ásþórsson, Nikulás Val Gunnarsson og Mathias Laursen Christensen voru á skotskónum fyrir Fylkismenn en Kristófer Jacobson Reyes klóraði í bakkann fyrir Kórdrengi. 

Grótta og HK sem eru svo í öðru til þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Fylki, unnu bæði sannfærandi sigra í leikjum sínum í kvöld. 

Kjartan Kári Halldórsson heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Gróttu en hann skoraði tvö marka liðsins í 3-0 sigri gegn Selfossi. Óliver Dagur Thorlacius bætti svo þriðja markinu við fyrir Seltirninga. 

Kjartan Kári er markahæsti leikmaður deildarinnar með 12 mörk en lið í Bestu deildinni eru farin að bera víurnar í framherjann. 

HK bar sigurorð af KV með fjórum mörkum gegn engu. Atli Arnarson, Ásgeir Marteinsson og Stefán Ingi Sigurðarson skoruðu fyrstu þrjú mörk HK en síðasta mark Kópavogsliðsins var sjálfsmark. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×