Innlent

Erlendur ferðamaður lést í slysinu við Vík

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn var á sjötugsaldri.
Maðurinn var á sjötugsaldri.

Ökumaður fólksbifreiðar, erlendur karlmaður á sjötugsaldri, lést í bílslysinu sem varð austan við Vík í Mýrdal í dag. Eiginkona hans var flutt alvarlega slösuð með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn á vettvangi. Bíllinn sem hann ók lenti í árekstri við sendibifreið sem kom úr gagnstæðri átt á þjóðvegi 1 vestan Kúðafljóts.

Meiðsli ökumanns sendibifreiðarinnar reyndust minniháttar en hann var einn í bíl. Hann var aðstoðaður við að komast til síns heima eftir að hann fékk aðhlynningu heilbrigðisstarfsmanna á vettvangi.

Tildrög slyssins eru sögð til rannsóknar og að ekki verði gefnar upplýsingar um einstaka þætti hennar fyrr en að henni lokinni.

Tilkynnt var um að tvær bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt hefðu rekist á klukkan 15:50 í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðin. Kona mannsins sem lést var flutt með sjúkrabíl til móts við þyrluna sem flutti hana svo á Landspítalann í Fossvogi.

Vegurinn var lokaður vegna slyssins en hann var opnaður aftur nú í kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×