Innlent

Óskaði eftir kyn­ferðis­legum myndum og sendi typpa­mynd til barns á Snapchat

Atli Ísleifsson skrifar
Brotin sem tíunduð eru í ákæru voru framin árið 2020.
Brotin sem tíunduð eru í ákæru voru framin árið 2020. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða fangelsi og greiðslu 400 þúsund króna í bætur fyrir brot gegn barnaverndarlögum og brot gegn blygðunarsemi eftir að hafa beðið tvo einstaklinga um kynferðislegar myndir og sent þeim typpamyndir á Snapchat.

Fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum. Þá er maðurinn dæmdur til að greiða rúmlega tvær milljónir króna vegna málsvarnalauna skipaðs verjanda, þóknunar réttargæslumanns og annars sakarkostnaðar.

Brotin áttu sér stað árið 2020 en í fyrsta ákærulið segir að maðurinn hafi í gegnum einkaskilaboð á Snapchat, beðið unga stúlku um kynferðislegar myndir og sent henni mynd af berum getnaðarlim sínum og þannig sært blygðunarsemi hennar og sýndi henni ósiðlegt athæfi.

Í öðrum ákæruliðnum segir að hann hafi brotið gegn blygðunarsemi með því að hafa í einkaskilaboðum á Snapchat sett sig í samband við notanda og viðhaft kynferðislegt tal, beðið um kynferðislegar myndir og sent mynd af berum getnaðarlim sínum. Sagðist notandinn í því tilviki hafa verið 14-15 ára stúlka.

Maðurinn var sömuleiðis ákærður fyrir kynferðisbrot með því að haft í vörslu sinni tvo farsíma sem sýndu 85 ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Hafði hann aflað þeirra í samskiptum við aðila a samfélagsmiðlunum Kik og Snapchat á árunum 2018 til 2020. Lögregla lagði hald á símana við húsleit á heimili mannsins.

Maðurinn játaði sök í málinu, en í dómi segir að hann hafi ekki átt sakaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×