Fótbolti

Byrjunarlið Íslands gegn Ísrael: Hákon Arnar kemur aftur inn í liðið

Sverrir Mar Smárason skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson í leik Íslands og Albaníu. Rúnar vermir mark Íslands í kvöld.
Rúnar Alex Rúnarsson í leik Íslands og Albaníu. Rúnar vermir mark Íslands í kvöld. Vísir/Diego

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, hefur tilkynnt um byrjunarlið Íslands fyrir leik liðsins gegn Ísrael sem hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni. Hákon Arnar kemur inn í annars óbreytt lið frá leiknum gegn Albaníu.

Íslenska liðið gerði 2-2 jafntefli við Ísrael ytra í fyrri leik liðanna, 2. júní s.l.. Markaskorararnir í þeim leik, Þórir Jóhann Helgason og Arnór Sigurðsson, byrja báðir leikinn í kvöld.

Rúnar Alex heldur áfram að verja mark Íslands en hann hefur gert það í báðum leikjunum sem spilaðir hafa verið í Þjóðadeildinni í þessum glugga.

Arnar Þór byrjar með sömu vörn og gerði jafntefli við Albaníu hér heima fyrir viku síðan. Alfons Sampsted hægri bakvörður, Davíð Kristján Ólafsson vinstri bakvörður og Daníel Leó Grétarsson og Hörður Björgvin Magnússon hafsentar.

Birkir Bjarnason og Þórir Jóhann Helgason halda sætum sínum á miðjunni en Hákon Arnar Haraldsson kemur aftur inn í liðið á kostnað Ísaks Bergmanns Jóhannessonar, vinar síns.

Framlínan er sú sama og í síðasta leik í keppninni. Arnór Sigurðsson á hægri kannti, Jón Dagur Þorsteinsson á vinstri kannti og Andri Lucas Gudjonssen einn fremstur.


Tengdar fréttir

Arnar segir ummæli Kára óheppileg og soft

Landsliðið fékk mikla gagnrýni eftir sigurleikinn gegn San Marínó á fimmtudaginn síðasta. Fyrrum landsliðsmennirnir Kári Árnason og Rúrik Gíslason sögðu í útsendingu Viaplay af leiknum að leikmenn væru ekki nógu harðir af sér. Landsliðsþjálfarinn, Arnar Þór Viðarsson, er ekki sammála þessari nálgun fyrrum landsliðsmannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×