Fótbolti

Hófu magnaða endur­komu eftir að Gunn­hildur Yrsa fór af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrirliði Orland Pride.
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrirliði Orland Pride. Twitter@ORLPride

Orlando Pride, lið landsliðskonunnar Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, skoraði tvívegis þegar langt var komið fram yfir venjulegan leiktíma og bjargaði þar með stigi á heimavelli gegn Washington Spirit, lokatölur 2-2.

Gunnhildur Yrsa var á sínum stað í byrjunarliði Orlando – og með fyrirliðabandið - er Washington mætti með Trinity Rodman í broddi fylkingar. Það tók Trinity aðeins 19 mínútur að koma gestunum yfir og var staðan 0-1 í hálfleik.

Gestirnir tvöfölduðu svo forystuna á 66. mínútu leiksins og útlitið dökkt fyrir heimakonur. Tólf mínútum síðar var Gunnhildur Yrsa tekin af velli er Orlando bætti í sóknarleikinn. Það átti eftir að bæta sig en Jordyn Listro - sem kom inn fyrir Gunnhildi Yrsu – lagði upp mark Mikaylu Cluff þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Það var svo þremur mínútum síðar sem Darian Jenkins jafnaði metin, staðan orðin 2-2 og reyndust það lokatölur leiksins.

Orlando Pride er í 4. sæti NWSL- deildarinnar með 8 stig eftir sex leiki á meðan Washington Spirit er í 7. sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×