Viðskipti innlent

Ásgeir nýr forstjóri SKEL og Iða Brá tekur við sem að­­stoðar­banka­­stjóri

Eiður Þór Árnason skrifar
Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason og Iða Brá Benediktsdóttir.
Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason og Iða Brá Benediktsdóttir. Arion banki

Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason lætur af störfum sem aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs Arion banka og tekur við sem nýr forstjóri SKEL fjárfestingarfélags, sem áður hét Skeljungur.

Ásgeir hefur gegnt stjórnendastöðunum hjá bankanum frá árinu 2019 og mun hætta störfum á næstu dögum. Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, mun nú jafnframt gegna starfi aðstoðarbankastjóra og í því hlutverki meðal annars leiða sókn Arion banka og Varðar á tryggingamarkaði. 

Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs og tekur sæti í framkvæmdastjórn bankans.

Hákon Hrafn Gröndal, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs.Arion banki

Þetta kemur fram í tilkynningum frá Arion banka og SKEL fjárfestingarfélagi. Hið síðarnefnda hefur sömuleiðis ráðið Magnús Inga Einarsson í starf fjármálastjóra félagsins. Á sama tíma lætur Ólafur Þór Jóhannesson af störfum sem forstjóri en hann hefur starfað hjá SKEL, þar áður Skeljungi hf., frá árinu 2019, þar af sem forstjóri frá því í febrúar árið 2022.

Margrét hættir hjá Arion banka

Margrét Sveinsdóttir mun einnig láta af störfum hjá Arion banka á næstu vikum eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar, síðar markaða, frá árinu 2009. Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.

Jóhann Möller hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis frá árinu 2020.Aðsend

Ásgeir mun hefja störf hjá SKEL um mitt sumar og Magnús seinni part sumars. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður SKEL, segir að það sé mikill fengur í að fá Ásgeir og Magnús til liðs við félagið. 

„Ásgeir hefur mikla þekkingu og reynslu úr Íslensku atvinnulífi, nú síðast sem aðstoðarbankastjóri Arion banka hf. og Magnús verið lykilaðili í uppbyggingu Kviku banka hf. sl. ár. Þessir tveir öflugu aðilar munu hrinda í framkvæmd áframhaldandi umbreytingu félagsins, þar sem lögð verður áhersla á fjárfestingar í fyrirtækjum og þróun fyrirtækja, sem hafa meðal annars að leiðarljósi að einfalda fólki og fyrirtækjum lífið. 

Ég vil þakka Ólafi Þór Jóhannessyni fráfarandi forstjóra fyrir vel unnin störf undanfarin ár við umbreytingu á félaginu og fyrir að leiða það fyrstu skrefin sem fjárfestingarfélag á meðan unnið var að ráðningu á forstjóra þess til framtíðar. Ólafur mun vera stjórn félagsins innan handar þar til nýr forstjóri tekur til starfa,“ er haft eftir Jón Ásgeiri í tilkynningu til Kauphallar. 

Skili afar góðu búi

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, þakkar fráfarandi starfsmönnum fyrir farsælt og ánægjulegt samstarf. 

„Ásgeir hefur verið hjá bankanum í tæp þrjú ár og á þeim tíma gegnt lykilhlutverki í stefnumótun og þeim mikilvægu breytingum sem bankinn hefur farið í gegnum, ekki síst varðandi þjónustu okkar við fyrirtæki. 

Margrét hefur setið í framkvæmdastjórn Arion banka í 13 ár og veitt eignastýringu bankans forystu þann tíma og markaðsviðskiptum undanfarin þrjú ár. Margrét skilar afar góðu búi og eru eignastýring og markaðsviðskipti Arion banka í forystu hér á landi. Ég óska þeim báðum góðs gengis í nýjum verkefnum. Ég óska Iðu Brá, Jóhanni og Hákoni Hrafni til hamingju með ný hlutverk innan bankans.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×