Viðskipti innlent

Kaffi Kjós til sölu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kaffi Kjós á góðum sumardegi.
Kaffi Kjós á góðum sumardegi. Fasteignavefur

Kaffi Kjós við Meðalfellsveg er til sölu. Kaffihúsið hefur verið rekið frá árinu 1998 og eigendur segja samfélagið á svæðinu vona að veitingarekstur haldi þar áfram.

Hjónin Hermann Ingólfsson og Birna Einarsdóttir stofnuðu Kaffi Kjós 1998 og sáu um rekstur kaffihússins í 24 ár til ársins 2022. Þá fannst þeim tími til kominn að draga aðeins saman seglin og reksturinn var settur á sölu.

Ungt par með börn hafði þá hug á því að kaupa reksturinn en vildu fá að prófa slíkan veitingarekstur áður en þau létu til skarar skríða. Þau tóku kaffihúsið á leigu og sáu um reksturinn undanfarin tvö ár.

Þau hafa nú hætt rekstri og hyggjast ekki kaupa, og er húsið því komið aftur á sölu.

Hermann og Birna óska nú eftir tilboðum í húsið, og auglýsa það sem frábæran stað með einstakt útsýni á eignarlandi. Vakin er athygli á því að hægt er að breyta því í sumarhús vilji kaupandinn gera slíkt.

Hermann segir að samfélagið á svæðinu vilji halda rekstri veitingahússins gangandi.

„Samfélagið er í mínus en það kemur enginn. Kannski kemur einhver þegar fer að vora,“ segir Hermann.

Sjá auglýsingu á fasteignavef Vísis og Facebook síðu Kaffi Kjósar.

Fasteignavegur
Fasteignavefur





Fleiri fréttir

Sjá meira


×