Fótbolti

Dynamo Kiev leikur gegn stærstu liðum Evrópu til að safna pening fyrir Úkraínu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úkraínsku meistararnir ætla að safna pening fyrir þjóð sína.
Úkraínsku meistararnir ætla að safna pening fyrir þjóð sína. Anatolii Stepanov/Anadolu Agency via Getty Images

Úkraínsku meistararnir Dynamo Kiev munu leika vináttuleiki gegn Barcelona, Paris Saint-Germain og AC Milan, ásamt öðrum stórliðum Evrópu til að safna pening fyrir stríðshrjáða þjóð þeirra.

Leikirnir verða leiknir á heimavöllum mótherja þeirra undir yfirskriftinni „Match for Peace! Let's stop the War,“ eða „Leikur fyrir frið! Stöðvum stríðið.“

Ajax, Benfica og Sporting Lissabon ætla einnig að spila gegn úkraínsku meisturunum og leggja þannig sín lóð á vogarskálina.

Úkraínska deildin hefur ekki enn farið af stað á ný eftir vetrarfrí sökum innrásar Rússa í landið.

Leikirnir munu fara fram einhverntíman á milli apríl og júní og í yfirlýsingu Dynamo segir að tilgangur leikjanna sé að upplýsa alþjóðasamfélagið um atburðina sem eiga sér stað á hverjum degi í Úkraínu.

„Tilgangur leikjanna er að upplýsa alþjóðasamfélagið um það hræðilega stríð sem nú geisar í Úkraínu, sem og að afla fjár til að styðja við úkraínskan almenning sem hefur þurft að þjást af völdum stríðsins við rússneska árásarmenn,“ segir í yfirlýsingunni.

„Dynamo Kiev mun sýna heiminum að fólkið í Úkraínu vill frið og frelsi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×