Erlent

Saka Rússa um þjóðarmorð í Bucha

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjöldagrafir við kirkju í miðbæ Bucha.
Fjöldagrafir við kirkju í miðbæ Bucha. AP Photo/Rodrigo Abd

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu hefur sakað Rússa um þjóðarmorð eftir að Rússar yfirgáfu bæinn Bucha í útjaðri Kænugarðs fyrir helgi. Svo virðist sem tugir ef ekki fleiri almennir borgarar hafi verið teknir af lífi í bænum af Rússum og grafa hefur þurft lík þeirra í fjöldagröfum.

Við vörum við öllu myndefni sem finna má í fréttinni, líka því sem fylgir samfélagsmiðlafærslum.

ússneskar hersveitir hörfuðu frá Bucha á fimmtudag en höfðu haft þar viðveru frá því að innrás þeirra í Úkraínu hófst 24. febrúar. Strax og úkraínski herinn komst aftur inn í bæinn fóru myndir af líkum, sem legið hafa á strætum bæjarins, að birtast í fjölmiðlum. 

Myndirnar sýna meðal annars lík fólks með hendur bundnar fyrir aftan bak og fréttamenn Reuters, AP og AFP hafa greint frá því að mörg fórnarlambanna hafi verið skotin í höfuðið. Búið er að grafa fjöldagrafir við kirkju í miðborginni svo hægt sé að jarðsetja líkin. 

Lík liggja á víð og dreif um Bucha eftir brotthvarf Rússa. Hér má sjá lík manns sem var með hendur bundnar fyrir aftan bak þegar hann var tekinn af lífi.AP Photo/Vadim Ghirda

Selenskí skrifaði á Facebook fyrr í dag að Atlantshafsbandalagið hefði getað komið í veg fyrir þetta á fundi í Búkarest fyrir fjórtán árum síðan. Rússneskar mæður hafi þá alið upp morðingja, ræningja og slátrara. 

Vitali Klitschko borgarstjóri Kænugarðs er þá staddur í Bucha og birti hann þaðan myndband af sér með yfirlýsingu: Þetta er þjóðarmorð.

Fjöldi vestrænna leiðtoga hefur sakað Rússa um stríðsglæpi í Bucha. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að sjá myndir af ódæðinu hafa verið eins og að vera kýldur í magann. Utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, Bretlands og Evrópusambandsins hafa þá gagnrýnt Rússa harðlega vegna frétta frá Bucha og utanríkisráðherra Bretlands og Frakklands heitið því að lönd þeirra muni styðja við rannsókn Stríðsglæpadómstólins á meintum stríðsglæpum Rússa. 

Bæjarstjóri Bucha hefur sagt að meira en 300 almennir borgarar hafi verið teknir af lífi á þeim mánuði sem Rússar höfðu yfirráð í bænum. 

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir úkraínska herinn bera ábyrgð á fjöldamorðunum í Bucha, bæ rétt fyrir utan Kænugarð. Rússar vilja meina að hermenn þeirra hafi ekki skaðað einn einasta almenna borgara.

Rússar hafa haft yfirráð yfir bænum frá upphafi innrásarinnar 24. febrúar þar til á fimmtudag, 31. mars. Rússar segja að myndir af líkum almennra borgara, sem lágu á víð og dreif um bæinn, beri þess merki að þeir hafi verið myrtir eftir brotthvarf Rússa á fimmtudag.

Þessi yfirlýsing er ekki sú fyrsta af þessum toga en Rússar hafa ítrekað haldið því fram að Úkraínumenn beri ábyrgð á mannfalli og árásum, sem allt bendir til að Rússar hafi framið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×