Erlent

Fæddi barn ó­kunnugrar konu vegna mis­taka

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsókn á málinu er hafin innan frjósemisstofunnar og hefur sömuleiðis verið tilkynnt til eftirlitsaðila.
Rannsókn á málinu er hafin innan frjósemisstofunnar og hefur sömuleiðis verið tilkynnt til eftirlitsaðila. Getty

Áströlsk kona hefur óafvitandi fætt barn ókunnugrar konu eftir að starfsmenn frjósemisstofu komu fyrir mistök fósturvísum annarrar konu fyrir í legi hennar.

Ástralskir fjölmiðlar segja frá því að ruglingurinn hafi átt sér stað á frjósemisstofunni Monash IVF í Brisbane og að um mannleg mistök hafi verið að ræða.

„Fyrir hönd Monash IVF þá vil ég segja að mér þykir sannarlega miður hvað gerst hefur,“ sagði forstjórinn Michael Knaap og bætti við að starfsmenn stofunnar væri niðurbrotnir vegna málsins. Hann segist sannfærður um að einangrað atvik sé að ræða.

Frjósemisstofan rataði einnig í fréttir á síðasta ári þegar hún greiddi út jafnvirði 4,5 milljarða íslenskra króna í bætur til skjólstæðinga vegna lífvænlegra fósturvísa um sjö hundruð para sem höfðu fyrir mistök verið eyðilagðir.

Upp komst um ruglinginn nú í febrúar þegar konan sem fæddi barnið og maki hennar fóru fram á að aðrir fósturvísar þeirra yrðu fluttir á aðra frjósemisstofu.

„Í stað þess að finna þann fjölda fósturvísa sem reiknað hafði verið með, þá var einn auka fósturvísir í geymslu,“ sagði talsmaður stofunnar í samtali við ástralska fjölmiðla.

Monash IVF hefur nú staðfest að fósturvísir annars skjólstæðings hafi fyrir mistök verið þíddur og komið fyrir í legi konunnar og leitt til fæðingar barns.

Rannsókn á málinu er hafin innan frjósemisstofunnar og hefur málið sömuleiðis verið tilkynnt til þar til bærra eftirlitsaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×