Erlent

Erjur í innsta hring Trump fyrir opnum tjöldum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Navarro og Musk virðast ekki eiga mikið skap saman.
Navarro og Musk virðast ekki eiga mikið skap saman. EPA

Elon Musk, auðugasti maður heims og einn helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, kallaði Peter Navarro, einn helsta ráðgjafa forsetans í tollamálum, „heimskari en múrsteinahrúgu“ í færslu á X

Í síðustu viku fylgdist heimsbyggðin með þegar Trump tilkynnti um víðtækar tollahækkanir Bandaríkjanna gagnvart öðrum löndum. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs fólst mikill sigur í því fyrir Navarro sem hefur talað fyrir þessari tollastefnu.

Skömmu eftir tilkynningu Trump skaut Musk á Navarro á X og gerði lítið úr hagfræði-gráðu hans frá Harvard-háskóla. Gráðan væri miklu frekar galli frekar en kostur. Jafnframt gagnrýndi Musk kollega sinn í Hvíta húsinu fyrir að hafa ekki komið að fyrirtækjarekstri.

Navarro svaraði fyrir sig í viðtali hjá CNBC. Hann sagði Musk, sem er forstjóri Teslu, ekki vera sannan bílaframleiðanda heldur væri hann frekar „bílasamsetjari“. Markmiðið með tollalagningunni væri að sjá til þess að bandarískir bílar væru búnir til úr bandarískum pörtum, ekki innfluttum.

Musk sagði þá í færslu að Tesla væri reyndar sá bandaríski bílaframleiðandi sem væri að mestu leyti framleiddur úr bandarískum pörtum.

„Navarro er sannur hálfviti. Það sem hann segir er algjörlega ósatt,“ sagði Musk á X, en undanfarna sólarhinga hefur hann kallað hann öllum illum nöfnum í færslum á miðlinum.

„Þetta eru augljóslega tveir einstaklingar sem líta tollamál mjög ólíkum augum,“ sagði Karoline Leavitt, taldsmaður Hvíta hússins, þegar hún var spurð út í erjurnar á blaðamannafundi í dag.

„Strákar verða alltaf strákar. Og við munum leyfa þeim að halda áfram þessum opinbera kýtingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×