Erlent

Pól­land ætlar að hætta notkun rúss­nesks jarð­efna­elds­neytis

Eiður Þór Árnason skrifar
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands. Ap/Thibault Camus

Pólverjar hyggjast hætta öllum innflutningi á olíu frá Rússlandi fyrir lok þessa árs. Þetta tilkynnti Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra landsins í morgun. Hann sagði stjórnvöld nú þegar hafa tekið skref til að draga úr notkun á rússneskri olíu.

Í gær gaf ríkisstjórnin út að hún ætlaði að banna innflutning á kolum frá Rússlandi og vonaðist til að lokað yrði fyrir gasinnflutning frá ríkinu í maí.

Hann sagði áætlun stjórnvalda vera þá róttækustu í Evrópu. Hann kallaði eftir því að önnur Evrópusambandsríki stígi stærri skref til að verða óháðari innflutningi frá Rússlandi og hætta þar með að fjármagna stríðsrekstur Rússa.

Virkja viðbúnaðarstig af ótta við að missa rússneskt gas

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa virkjað lægsta viðbúnaðarstig vegna stöðu gasbirgða og hvatt íbúa til að spara orku af ótta við að rússnesk stjórnvöld muni standa við hótanir um að stöðva útflutning á gasi ef ríki borga ekki með rúblum. Um er að ræða lægsta viðbúnaðarstig af þremur og hefur orkumálaráðuneytið komið á fót sérstöku viðbragðsteymi sem fylgist náið með stöðunni.

Ríki á Vesturlöndum hafa hafnað kröfum Rússa um greiðslur í rúblum og sagt að slíkt myndi grafa undir efnahagsþvingunum þeirra vegna stríðsins í Úkraínu.

Biðlar til heimila

Robert Habeck, orkumálaráðherra og varakanslari Þýskalands, sagði að virkjun viðbúnaðarstigsins væri varúðarráðstöfun og að Rússar hafi staðið við skuldbindingar sínar fram að þessu. Á sama tíma biðlaði hann til heimila og fyrirtækja að draga úr gasnotkun sinni.

Hann sagði von á því að stjórnvöld í Kreml muni kynna nýjar reglur um greiðslur fyrir gas á fimmtudag.

Þjóðverjar hafa dregið úr gasinnflutningi frá Rússlandi eftir að stríðið hófst og sagði Habeck að hlutfall gass sem komi nú frá ríkinu sé nú komið úr 55% í 40%.

Hann sagði að Þýskaland væri undirbúið ef Rússar skrúfa fyrir gasið. Slík aðgerð myndi þó hafa umtalsverð áhrif og kallaði ráðherrann eftir því að neytendur minnki notkun sína til að draga úr hættunni á gasskorti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×