Erlent

Missti annað barnið sitt í sprengju­á­rás Rússa

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Anastasiya Erashova situr með barn sitt sem lifði sprenjuárásina af á spítala í Mariupol. 
Anastasiya Erashova situr með barn sitt sem lifði sprenjuárásina af á spítala í Mariupol.  ap/evgeniy maloletka

Pútín Rúss­lands­for­seti sýndi engan vilja til að binda enda á stríðið við Úkraínu að sögn franskra yfir­valda en Pútín átti síma­fund með Frakk­lands­for­seta og kanslara Þýska­lands í dag. Á­rásir Rússa á nokkrar úkraínskar borgir færðust mjög í aukana í morgun. Við vörum við mynd­efni sem fylgir myndbandinu í fréttinni.

Í því má sjá hvernig var um­horfs í úkraínsku borginni Mariu­pol í gær, sem er um­setin af Rússum.

Eftir um tvær vikur af stans­lausum á­rásum Rússa á borgina eru borgar­búar orðnir upp­gefnir.

Þeir hafa verið án vatns, hita og raf­magns í marga daga.

Sam­kvæmt Sam­einuðu þjóðunum hafa nú fleiri en 1.500 al­mennir borgarar látið lífið í stríðinu og þar af 42 börn.

Hver færir okkur börnin okkar aftur?

Anastasi­ya Eras­hova, ung móðir, missti annað barn sitt í sprengju­á­rásum á Mariu­pol í gær.

„Við fórum heim til bróður míns öll saman. Konur og börn leituðu skjóls neðan­jarðar og svo laust sprengju­varpa húsið. Við vorum föst neðan­jarðar og tvö börn létust. Enginn gat bjargað þeim,“ segir Anastasi­ya.

„Ég veit ekki hvert ég á að flýja. Hver færir okkur börnin okkar aftur? Hver?“

Enginn vill gefa eftir

Á síma­fundi sem Emanuel Macron Frakk­lands­for­seti og Olaf Scholz Þýska­lands­kanns­lari áttu með Pútín í dag báðu þeir hann að hætta um­sátrinu um Mariu­pol.

Að þeirra sögn sýndi Pútín engan vilja til að binda enda á stríðið í bráð.

For­seti Úkraínu á­varpaði þjóð sína í dag og sagði úkraínska herinn hafa náð sögu­legum árangri gegn Rússum.

„Af­hroðið sem rúss­neski herinn hefur beðið er gríðar­legt. Tjónið sem inn­rásar­liðið hefur orðið fyrir á sau­tján dögum er slíkt að það er ó­hætt að segja að þetta sé mesta á­fall sem rúss­neski herinn hefur orðið fyrir í ára­tugi. Þeir hafa aldrei tapað svo miklu á svo stuttum tíma,“ sagði Volodymyr Zeleskyy.

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu sagði í sjónvarpsávarpi í dag að Úkraínumenn mættu ekki láta deigan síga. AP/forsetaembætti Úkraínu

Á­rásir Rússa á margar úkraínskar borgir færðust í aukana í dag og þá virðist Rússum orðið nokkuð á­gengt á svæðum í kring um höfuð­borgina Kænu­garð.

„Við höfum engan rétt á að draga úr vörnum okkar. Sama hversu erfitt það er. Við höfum engan rétt á að draga úr krafti mót­spyrnunnar,“ sagði Zelen­skyy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×