Fótbolti

Fyrirliði fótboltaliðs Stanford-háskóla fannst látin aðeins 22 ára gömul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Meyer var vinsæl í Stanford-háskóla og í leiðtogahlutverki hjá fótboltaliðinu.
Katie Meyer var vinsæl í Stanford-háskóla og í leiðtogahlutverki hjá fótboltaliðinu. AP/Stanford Athletics

Katie Meyer, markvörður og fyrirliði fótboltaliðs Stanford í bandaríska háskólafótboltanum, er látin og hefur fráfall hennar verið mikið áfall fyrir alla sem þekktu til hennar.

Meyer fannst í íbúð á háskólasvæðinu hjá Stanford en ekki hefur verið gefið upp hvernig hún lést.

Meyer var aðeins 22 ára gömul og hafði leitt Stanford til háskólatitilsins árið 2019. Hún varði þá tvær vítaspyrnur í vítakeppninni í úrslitaleiknum.

Meyer var á síðasta ári í skólanum og var hún að læra alþjóðleg samskipti og sögu.

Skólinn og aðrir hafa minnst Meyer síðan þessar hræðilegu fréttir voru gerðar opinberar.

Skólinn hefur líka boðið fram aðstoð til þeirra sem eru í sárum eftir þennan mikla missi og þetta mikla áfall að missa unga konu í blóma lífsins.

„Það eru engin orð sem geta lýst þeirri sorg sem við upplifum öll eftir fráfall Katie Meyer,“ sagði Bernard Muir, íþróttastjóri skólans, í yfirlýsingu.

„Katie var framúrskarandi nemandi og íþróttakona sem allir elskuðu auk þess að vera ástríðufullur leiðtogi hér í Stanford skóla. Allir hér í íþróttastarfi skólans eru harmi lostin og við munum öll sakna Katie mjög mikið,“ sagði Muir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×