Innlent

Orri vill 2. sætið hjá Sjálf­stæðis­mönnum í Hafnar­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Orri Björnsson.
Orri Björnsson. Aðsend

Orri Björnsson, forstjóri líftæknifyrirtækisins Algalífs í Reykjanesbæ, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem haldið verður dagana 3. til 5. mars.

Í tilkynningu segir að Orri hafi leitt uppbyggingu Algalífs frá 2012 og sé það að verða eitt öflugasta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum. 

„Bæði Orri og Algalíf hafa hlotið fjölda innlendra og alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga fyrir árangursríka nýsköpun í grænni líftækni.

Orri er fæddur í Reykjavík árið 1971 en flutti ungur til Hafnarfjarðar. Hann hefur búið og starfað víða um heim þar sem hann leiddi ýmis verkefni í lyfja- og líftæknigeirunum. Hann var einnig um skeið sérstakur ráðgjafi á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Orri hefur verið öflugur í starfi Sjálfstæðisflokksins og gengt fjölmörgum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn bæði í Hafnarfirði og á landsvísu. Öll hans störf hafa grundvallast á gildum sjálfstæðisstefnunnar um frelsi, ábyrgð og samhygð.

Í bæjarmálum hefur hann gengt formennsku í ýmsum starfshópum, ráðum og nefndum, auk starfa í bæjarstjórn. Þá var Orri einnig um árabil fulltrúi Hafnfirðinga og Sjálfstæðisflokksins í stjórn HS Veitna.

Orri var lengi í forystusveit íslensku glímuhreyfingarinnar en hann er liðtækur glímumaður og vann Grettisbeltið árið 1994. Á yngri árum var hann í öflugu Gettu betur liði Flensborgar og hann keppti fyrir hönd Hafnarfjarðar í spurningaþættinum Útsvari á RÚV,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×