Erlent

Full­trúi Ísraels í Euro­vision lifði af hryðju­verka­á­rásirnar sjöunda októ­ber

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hún komst naumlega lífs af undan hrottalegum árásum Hamas-liða á tónlistarhátíðina Nova.
Hún komst naumlega lífs af undan hrottalegum árásum Hamas-liða á tónlistarhátíðina Nova. Keshet 12/Ortal Dahan Ziv

Söngkonan Yuval Raphael verður fulltrúi Ísraels í Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, eftir að hafa borið sigur úr bítum í forkeppninni þar í landi. Hún er ein þeirra sem lifði af árás Hamas-liða á tónlistarhátíðina Nova sjöunda október 2023.

Yuval er 24 ára og kemur frá bænum Raanana í nágrenni Tel Avív. Hún var gestur á tónlistarhátíðinni Nova þar sem Hamas myrti 364 manns, að mestu óbreytta tónleikagesti, og særði umtalsvert fleiri. Þar að auki voru 40 gíslar teknir á hátíðinni og margir beittir kynferðislegu ofbeldi.

Árásin er stærsta hryðjuverkaárás sem framin hefur verið í sögu Ísraels. Hundruð voru skotin til bana þar sem þau reyndu að flýja árásarmennina í sprengjubyrgi í nágrenninu. Yuval var ein þeirra sem komust ofan í byrgi í tæka tíð.

Í umfjöllun EurovisionWorld segir að hún hafi falið sig í litlu sprengjubyrgi ásamt fimmtíu öðrum á meðan árasirnar dundu yfir. Hamas-liðar hafi fundið þau og ítrekað skotið á byrgið. Aðeins ellefu þeirra fimmtíu sem földu sig þar höfðu það af. Yuval þóttist vera dáin undir líkum hinna látnu í átta klukkustundir.

Fram kemur í umfjöllun Jerusalem Post að Yuval hafi vakið mikla athygli í Ísrael á meðan forkeppninni stóð ekki síst vegna þess að hún byrjaði ekki að koma fram að atvinnu fyrr en eftir hryðjuverkaárásina.

Enn liggur ekki fyrir hvaða lag Yuval mun syngja en í Ísrael er það valið af dómnefnd á vegum sjónvarpsstöðvarinnar KAN11 í mars. Eurovision fer svo fram í Sviss í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×