Innlent

Minkurinn dó vegna fugla­flensu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Matvælastofnun hvetur kattareigendum til að halda köttunum frá villtum fuglum.
Matvælastofnun hvetur kattareigendum til að halda köttunum frá villtum fuglum. Vísir/Vilhelm

Minkurinn sem fannst dauður í Vatnsmýrinni í Reykjavík 17. janúar var með fuglainflúensu. Margar grágæsir hafa fundist dauðar í Reykjavík vegna inflúensunar.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum staðfesti greininguna. Engin ný smit hafi fundist í köttum eða öðrum spendýrum.

Skæð fuglainflúensa greinist enn í villtum fuglum samkvæmt tilkynningu Matvælastofnunar. Um 150 hræ grágæsa hafa fundist dauðar vegna fuglainflúensu á árinu á höfuðborgarsvæðinu að mati Matvælastofnunar og Dýraþjónustu Reykjavíkur.

Í Reykjavík hafa hræ sýkt af fuglaflensunni fundist í Vatnsmýrinni, við Tjörnina í miðbænum, í Grafarvogskirkjugarði, við Bakkatjörn og Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og við Nauthólsveg. Þá fannst einnig sýkt hræ við Bæjarbraut í Garðabæ.

Matvælastofnun hvetur alifuglaeigendur til að fylgja ýtrustu sóttvarna og vera vel á verði fyrir sjúkdómseinkennum. Þá skuli kattaeigendur reyna koma í veg fyrir að kettirnir komist í snertingu við villta fugla. Ekki er hægt að útiloka að hundar geti smitast af inflúensunni en engir hundar hafa greinst.

Strangar reglur eru nú í gildi hjá eigendum alifugla til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Til að mynda skuli fuglarnir vera í yfirbyggðum gerðum eða húsum og aðskildir frá villtum fuglum. Þá þurfa allir sem sinna alifuglum að nota hlífðarfatnað og allt sýningarhald fugla bannað. Reglurnar má lesa í tilkynningu Matvælastofnunar.

Þá hvetur Matvælastofnun alla til að tilkynna dauða fugla sem finnast á vergangi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×