Fótbolti

„Biðjið fyrir okkur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíski hópurinn á hótelinu í Kiev.
Brasilíski hópurinn á hótelinu í Kiev. Instagram/@marlonsantos_ms4

Stríðsástand í Úkraínu hefur auðvitað mikil áhrif á marga og ekki bara Úkraínumenn og Rússa. Erlendir atvinnumenn í landinu eru í vandræðum að sleppa í burtu.

Brasilískir fótboltamenn í Úkraínu hafa þannig leitað skjóls með fjölskyldu sinni á hóteli og leita leiða til að komast í burtu frá Úkraínu.

Marlon Santos, leikmaður Shakhtar Donetsk, bað um hjálp á samfélagsmiðlum en það lítur út fyrir að hann og þrettán brasilískur leikmenn félagsins komist ekki út úr landinu.

Leikmennirnir eru á hóteli í Kænugarði en þar er líka Vitinho sem spilar með Dynamo Kiev.

„Hér erum við allir samankomnir, leikmenn Dynamo og Shakhtar, og við erum hér með okkar fjölskyldum og á þessu hóteli út af ástandinu,“ sagði Marlon Santos í viðtalinu umkringdur öllum löndum sínum.

„Við erum að biðja um ykkar hjálp, vegna slæmra aðstæðna í borginni, lokaðra landamæra og lokaðar lofthelgi. Það er engin leið til að komast út. Við vonumst eftir aðstoðar frá ríkisstjórn Brasilíu sem getur hjálpa okkur,“ sagði Santos.

Kona eins leikmannsins fékk þá orðið. „Við konurnar erum hér með börnum okkar og okkur finnst við vera skilin eftir. Við vitum ekki hvað við eigum að gera og fáum engar upplýsingar. Við biðlum til ykkar, barnanna vegna. Við öll hlupum út úr húsum til að koma hingað á hótelið.“

Junior Moraes, leikmaður Shakhtar, setti líka inn myndband á samfélagsmiðla.

„Það er algjör örvænting. Landamærin eru lokuð, bankarnir eru lokaðir og það er ekkert eldsneyti til. Það verður fljótlega skortur á mat og það er enginn peningur. Við erum að bíða eftir einhverri leið til að komast frá Úkraínu,“ sagði Junior Moraes.

„Vinir og fjölskylda. Staðan er alvarleg og við erum föst í Kiev að bíða eftir lausn svo við komust í brutu. Við erum á hóteli. Biðjið fyrir okkur,“ sagði Junior.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×