Erlent

Rússar segjast flytja hluta her­manna sinna frá landa­mærunum

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega 100 þúsund rússneskir hermenn hafa verið við landamærin að Úkraínu síðustu vikurnar.
Rúmlega 100 þúsund rússneskir hermenn hafa verið við landamærin að Úkraínu síðustu vikurnar. EPA

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að hluti þeirra hermanna sem staðsettir hafi verið við landamærin að Úkraínu hafi nú verið dreginn til baka og þeir færðir aftur á herstöðvar sínar í Rússlandi.

Þetta kemur fram í frétt Interfax fréttastofunnar í Rússlandi. Áfram verði þó fjölmargir hermenn við landamærin við æfingar.

Í frétt BBC er haft eftir Mariu Zakharovu, talsmanni rússneska utanríkisráðuneytisins, að dagurinn í dag verði skráður í sögubækurnar þar sem stríðsáróður vestrænna ríkja hafi mistekist. Þau hafi orðið sér til skammar og knésett án þess að einu einasta skoti hafi verið hleypt af.

Rússneskar hersveitir hafa síðustu vikur og mánuði safnast saman nærri landamærunum að Úkraínu og hafa margir óttast að innrás kunni að vera yfirvofandi.

Rússar hafa hafnað slíkum hugmyndum og segir að um æfingar hafi verið ræða. Þeim sé frjálst að flytja sitt herlið innan sinna landamæra. Rússneski herinn hefur sömuleiðis staðið að fjölmennum heræfingum í Hvíta-Rússlandi síðustu daga.

Rúmlega 100 þúsund rússneskir hermenn hafa verið við landamærin að Úkraínu síðustu vikurnar.


Tengdar fréttir

Kalla eftir fundi með Rússum

Mikil ólga er enn á landamærum Rússlands og Úkraínu en yfirvöld í Úkraínu hafa óskað eftir fundi með Rússum vegna stöðu mála. Óttast er að innrás sé yfirvofandi en forseti Úkraínu segist ekki hafa neinar sannanir fyrir því. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×