Erlent

Kalla eftir fundi með Rússum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. 
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu.  Getty/Bernd von Jutrczenka

Mikil ólga er enn á landamærum Rússlands og Úkraínu en yfirvöld í Úkraínu hafa óskað eftir fundi með Rússum vegna stöðu mála. Óttast er að innrás sé yfirvofandi en forseti Úkraínu segist ekki hafa neinar sannanir fyrir því. 

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, segir rússnesk yfirvöld ekki hafa brugðist við fyrirspurnum þeirra um ástæður aukinnar viðveru rússneskra hermanna á landamærunum.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafði Kuleba farið fram á það síðastliðinn föstudag að Rússar myndu svara fyrir viðveru hermannanna en engin svör höfðu borist. 

Kuleba sagði þá næsta skref vera að krefjast fundar í samræmi við reglur Vínarskjalsins svokallaða, grundvallarsamnings um öryggissamvinnu í Evrópu, innan 48 klukkustunda þar sem Rússar myndu svara fyrir áform sín.

Um hundrað þúsund rússneskir hermenn eru nú á landamærunum og er óttast að innrás sé yfirvofandi. Yfirvöld í fjölmörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum og Bretlandi, hafa beint því til ríkisborgara sinna að yfirgefa landið vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi.

Rússnesk yfirvöld hafa þó alfarið neitað því að þeir stefni á að ráðast inn í Úkraínu. Joe Biden Bandaríkjaforseti, ræddi símleiðis við Vladimír Pútím Rússlandsforseta í gær og varaði við því að Vesturveldin myndu bregðast við af hörku ef til innrásar kæmi. Símtal þeirra bar þó lítinn árangur.

Volodímír Zelenskíj, forseti Úkraínu, ræddi þá við Biden í dag en þar sem Biden ítrekaði stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Sjálfur sagðist Zelenskík ekki hafa neinar haldbærar sannanir fyrir því að Rússar væru að skipuleggja árás inn í Úkraínu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×