Erlent

Gæti falið í sér banda­ríska her­menn á danskri jörð

Atli Ísleifsson skrifar
Jeppe Kofod utanríkisráðherra, Mette Frederiksen forsætisráðherra og Morten Bødskov varnarmálaráðherra á fréttamannafundinum sem hófst klukkan 14 að íslenskum tíma.
Jeppe Kofod utanríkisráðherra, Mette Frederiksen forsætisráðherra og Morten Bødskov varnarmálaráðherra á fréttamannafundinum sem hófst klukkan 14 að íslenskum tíma. AP

Stjórnvöld í Danmörk ætla sér að taka upp viðræður við bandarísk stjórnvöld um að aukið varnarsamstarf ríkjanna sem gæti þýtt að bandarískir hermenn gætu safnast saman og æft á danskri jörð.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, greindi frá þessu á fréttamannafundi sem hófst núna klukkan 14 að íslenskum tíma og DR segir frá. Viðræður um aukið samstarf verða teknar upp vegna „utanaðkomandi ógna“ og vísar hún þar til ástandsins á landsmærum Rússlands og Úkraínu.

Rússneski herinn hefur safnað saman um 100 þúsund hermönnum á landamærunum að Úkraínu síðustu vikur og óttast margir að innrás kunni að vera yfirvofandi. Þessu hafna Rússar.

Frekeriksen segir að samkomulag gæti falið í sér að það komi bandarískir hermenn og hergögn til Danmerkur. Þetta sé breyting á margra áratuga langri stefnu danskra stjórnvalda um að ekki séu erlendir hermenn á danskri jörð.

Varnarmálaráðherrann Morten Bødskov sagði á sama fréttamannafundi að ekki sé til umræðu að Bandaríkjaher komi sér upp herstöð í Danmörku. Samkomulag geti þó átt þátt í að styrkja stöðu Danmerkur innan NATO og benti hann á að Bandaríkin eigi nú þegar í svipuðu samstarfi við Noreg og Eystrasaltslöndin þrjú. Hann segir að samkomulag muni ekki fela í sér fjárhagslegan stuðning til Danmerkur frá Bandaríkjunum.

Utanríkisráðherrann Jeppe Kofod sagði að viðræður verðu nú teknar upp en að nauðsynlegt sé að vanda til verka í viðræðum og því sé samningur ekki alveg á næsta leiti. Gætu viðræður staðið í nokkra mánuði.

„Frelsi er ekki ókeypis. Á erfiðum tímum þurfa vinir að vinna náið saman. Það er það sem við gerum nú,“ sagði Kofod.


Tengdar fréttir

Ósammála um hvað Pútín sagði

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, virðast ósammála um hvað kom fram á rúmlega fimm klukkustunda fundi þeirra í Moskvu í gær. Macron segir Pútín hafa sagt sér að Rússar myndu ekki bæta á spennuna í kringum Úkraínu. Talsmaður Pútíns segir það þó ekki rétt,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×