Sport

Finnar segja Kín­verja brjóta á mann­réttindum í­þrótta­manna sinna á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marko Antilla fagnar hér marki þegar Finnar urðu heimsmeistarar árið 2019.
Marko Antilla fagnar hér marki þegar Finnar urðu heimsmeistarar árið 2019. Getty/Martin Rose

Finnska íshokkísambandið er mjög ósátt með þá meðferð sem tveir leikmenn landsliðs þeirra í íshokkó hafa fengið á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Tveir leikmenn og fjölmiðlafulltrúi liðsins fengu jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi og voru allir skikkaðir í einangrun á sérstöku hóteli.

Annar leikmaðurinn er markvörðurinn Jussi Olkinuora sem var fluttur með sjúkrabíl á hótelið í gær en hinn er Marko Anttila sem var í heimsmeistaraliðinu 2019. Fjölmiðlafulltrúinn Petteri Hiettanen er þar líka.

Finnska íshokkísambandið sendi frá sér harðorða fréttatilkynningu þar sem kemur fram að þeir Anttila, Olkinuora og Hiettanen hafi allir fengið kórónuveiruna áður en þeir fóru til Kína og þeir hafi allir verið búnir að ná sér.

Læknalið Finna segir að allir sé fullkomlega heilbrigðir og að þeir geti ekki lengur smitað neinn.

Kínverjar vinna með aðrar mælingar en aðrir þegar kemur að smithættu tengdri kórónuveirusmitum. Það er þess vegna sem allir Finnarnir þrír voru sendir í einangrun.

Þegar Kínverjar sóttu Anttila og fóru með hann á Covid-19 hótelið þá varð landsliðsþjálfarinn Jukka Jalonen öskuvondur og sparaði gestgjöfunum ekki kveðjurnar.

„Við vitum að hann er heilbrigður og tilbúinn að spila en af einhverjum ástæðum þá virða Kínverjar ekki mannréttindi hans,“ sagði Jukka Jalonen á blaðamannafundi.

Þetta virðist haga áhrif því Anttila var látinn laus í kvöld að kínverskum tíma og mátti hitta liðsfélaga sína á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×