Erlent

Segja fjölgunina í her­liði Banda­ríkjanna vera „skað­lega“

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríkjaher er nú að senda tvö þúsund hermenn frá Bandaríkjunum til Póllands og Þýskalands og sömuleiðis þúsund frá bandarískri herstöð í Þýskalandi og til Rúmeníu.
Bandaríkjaher er nú að senda tvö þúsund hermenn frá Bandaríkjunum til Póllands og Þýskalands og sömuleiðis þúsund frá bandarískri herstöð í Þýskalandi og til Rúmeníu. AP

Stjórnvöld í Rússlandi hafa fordæmt ákvörðun Bandaríkastjórnar að fjölga í herliði Bandaríkjahers í Austur-Evrópu vegna þeirrar spennu sem uppi er á landamærum Rússlands og Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að um tvö þúsund hermenn til viðbótar verði sendir frá Fort Bragg í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum til herstöðva í Póllandi og Þýskalandi og þá verði um þúsund bandarískir hermenn sem nú þegar eru í Þýskalandi sendir til Rúmeníu.

Alexander Grushko, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, segir ákvörðun Bandaríkjastjórnar vera „skaðlega“ og „órökstudda“, auka á spennu og draga úr líkum á að hægt verði að ná pólitískri lausn á deilunni.

Rússneski herinn er nú með um 100 þúsund hermenn staðsetta við landamærin að Úkraínu og hafa margir óttast að innrás sé yfirvofandi. Rússlandsstjórn segir hins vegar svo alls ekki vera.

Átta ár eru nú frá því að Rússland innlimaði Krímskaga í suðurhluta Úkraínu og studdi sömuleiðis uppreisn aðskilnaðarsinna í héruðum austast í Úkraínu.

Í frétt BBC segir að rússnesk stjórnvöld saki Úkraínustjórn um að framfylgja ekki ákvæðum Minsksamkomulagsins frá haustdögum 2014 sem ætlað var að koma á friði í austurhluta Úkraínu. Alls hafa um 14 þúsund manns látið lífið í átökum í austurhluta Úkraínu frá árinu 2014.

Bandaríkjaher er nú þegar með 8.500 hermenn reiðubúna að halda til Evrópu ef þörf krefur.


Tengdar fréttir

Biden sendir hermenn til Austur-Evrópu

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að senda fleiri bandaríska hermenn til Austur-Evrópu. Það ætlar hann að gera vegna þeirrar miklu spennu sem er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×