Innlent

Björgunar­sveitir að­stoðuðu vélar­vana bát

Smári Jökull Jónsson skrifar
Björgunarskipið Björg var kallað út frá Rifi til að aðstoða vélarvana bát.
Björgunarskipið Björg var kallað út frá Rifi til að aðstoða vélarvana bát. Landsbjörg

Björgunarsveitir hafa sinnt þremur útköllum það sem af er degi og þurfti björgunarskipið Björg meðal annars að aðstoða vélarvana bát norður af Rifi.

Útkallið barst rétt fyrir klukkan eitt í dag en báturinn var á veiðum 15 sjómílur norður af Rifi. Skipverjar höfðu lent í vandræðum og gat báturinn ekki siglt fyrir eigin vélarafli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Áhöfn skipsins er nú komin með bátinn í tog og er gert ráð fyrir að hann verði kominn í land nú seinni partinn.

Björgunarsveitir hafa sinnt fleiri útköllum í dag. Sveitir í Árnessýslu voru kallaðar að Suðurstrandarvegi þar sem kona hafði hrasað á göngu suður af Þorlákshöfn. Hún þurfti aðstoð við að komast í sjúkrabíl sem komst ekki á vettvang.

Þá sinntu hópar björgunarsveitarfólks, sem voru við æfingar á Langjökli, kallaðar til af Neyðarlínunni eftir að tilkynning barst um slasaða konu á svæðinu. Snjóbíll og björgunarsveitarbíll fluttu konuna til móts við sjúkrabíl við Geysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×