Erlent

Segja foreldra þurfa að eiga samtal við börn um klám fyrir 10 ára aldur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ræða þarf við börnin áður en þau eignast og fara að nota síma, segja ungmennin.
Ræða þarf við börnin áður en þau eignast og fara að nota síma, segja ungmennin.

Foreldrar þurfa að byrja að ræða klám við börn þegar þau eru 8 eða 9 ára gömul, segja breskir unglingar. Umboðsmaður barna á Englandi átti samráð við ungmenni við samningu leiðbeininga fyrir foreldra þegar þeir ræða um kynlíf við börnin sín.

Samkvæmt BBC sýna rannsóknir að helmingur barna undir 11 ára hefur séð klám og því þurfa foreldrar að vera reiðubúnir til að eiga samtal við börn sín fyrir þann aldur, segir ráðgjafanefndin um leiðbeiningarnar.

Þá þarf samtalið að eiga sér stað áður en börnin eignast og fara að nota síma.

Eitt ungmennanna sagðist telja nauðsynlegt að foreldrar þyrftu sérstaklega að huga að því að eiga samtal við drengi fyrr en seinna. „Mín reynsla af karlkyns vinum er að þeir sjá pottþétt klám á undan kvenkyns vinum. Ég meina snemma; í fjórða, fimmta, sjötta bekk.“

„Á svona ungum aldri veistu ekki hvað er rétt og rangt og fylgir bara því sem þú sérð á klámsíðum,“ sagði annað ungmenni.

Samkvæmt skýrslu umboðsmanns sjá mörg börn klám í fyrsta sinn fyrir slysni, þegar þau eru að vafra á netinu. Samkvæmt breskum lögum er ólöglegt að selja einstaklingum yngri en 18 ára klámfengið efni en erfiðara er að hafa eftirlit með klámframboði á netinu.

Leiðbeiningarnar til foreldra taka á ýmsum málum, til að mynda því þegar ungt fólk deilir nektarmyndum á samfélagsmiðlum. Er foreldrum ráðlagt að eiga yfirvegað samtal við barnið í stað þess að dæma það. Þá þurfa börn að geta rætt við foreldra sína þegar þau fá slíkar myndir sendar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×