Fótbolti

Töpuðu gegn botnliðinu án Arons

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi.
Aron Einar Gunnarsson í búningi Al Arabi. Getty/Simon Holmes

Aron Einar Gunnarsson, sem mætti til skýrslutöku á Íslandi vegna lögreglurannsóknar í vikunni, var ekki með Al Arabi þegar liðið tapaði deildabikarleik gegn Al Gharafa í dag.

Al Gharafa komst í 2-0 snemma í seinni hálfleik en Al Arabi minnkaði muninn á 66. mínútu og þar við sat.

Í þessari deildarbikarkeppni leika tíu lið úr katörsku úrvalsdeildinni í tveimur fimm liða riðlum. Al Arabi er enn á toppi B-riðils þrátt fyrir tapið en mun missa toppsætið síðar í dag eftir leik liðanna í 2. og 3. sæti.

Al Arabi er með níu stig eftir sjö leiki en Al Gharafa kom sér úr botnsætinu og er nú með átta stig. Al Ailiya og Al Khor eru með átta stig hvort en mætast í dag, og Qatar SC er nú í neðsta sæti með sjö stig. 

Tvö efstu liðin komast í undanúrslit og ljóst er að Al Arabi þarf á sigri að halda gegn Qatar SC í lokaleik sínum í næstu viku til að eiga möguleika á að komast í undanúrslitin.


Tengdar fréttir

Aron Einar og Eggert reikna með því að málið verði fellt niður

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, hefur gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á kynferðisbroti í Kaupmannahöfn árið 2010. Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH og fyrrverandi landsliðsmaður, gaf skýrslu hjá lögreglu í sama máli í gær. Leikmennirnir segjast báðir reikna með því að málið verði fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×