Fótbolti

Gummi Tóta með flotta innkomu þegar New York sló út Arnór Ingva og félaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson fagnar með félögum sínum í New York City FC eftir að sigurinn var í höfn í vítakeppninni.
Guðmundur Þórarinsson fagnar með félögum sínum í New York City FC eftir að sigurinn var í höfn í vítakeppninni. AP/Charles Krupa

Guðmundur Þórarinsson og félagar i New York City eru komnir alla leið í úrslitaleik Austudeildar MLS-deildarinnar eftir að hafa slegið út deildarmeistara New England Revolution í Íslendingarslag í nótt.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma. New York City vann 5-3 í vítakeppni.

Íslensku landsliðsmennirnir Guðmundur Þórarinsson og Arnór Ingvi Traustason byrjuðu báðir á bekknum í leiknum en komu inn á sem varamenn.

Arnór Ingvi kom inn á 90. mínútu en var síðan tekin aftur af velli á 114. mínútu.

Guðmundur kom inn á 101. mínútu og átta mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Valentín Castellanos. Castellanos skoraði þá með skalla og kom New York City í 2-1. Hér fyrir neðan má sjá fyrirgjöf Gumma Tóta og markið.

Tajon Buchanan jafnaði metin fyrir Revolution og tryggði sínu liði vítakeppni.

Leikmenn New York City nýttu allar fimm vítaspyrnurnar sínar og voru búnir að vinna vítakeppnina fyrir síðustu spyrnu New England.

Guðmundur tók ekki víti fyrir sitt lið og Arnór Ingvi var farinn af velli.

Adam Buksa sem skoraði fyrra mark New England í leiknum var sá eini sem klikkaði en Sean Johnson varði frá honum aðra vítaspyrnu liðsins.

Buksa jafnaði leikinn í 1-1 á 9. mínútu eftir að Santiago Rodríguez hafði komið New York City í 1-0 strax á 3. mínútu.

New York City mætir Philadelphia Union í úrslitaleik Austurdeildarinnar sem fer fram á sunnudaginn kemur. Sigurvegarinn úr þeim leik spilar til úrslita um bandaríska meistaratitilinn.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×