Íslenski boltinn

Í­hugaði að lauma mynd af húsinu í mynda­al­búm fjöl­skyldunnar

Aron Guðmundsson skrifar
Brynjar Viggósson er formaður knattspyrnudeildar Hauka
Brynjar Viggósson er formaður knattspyrnudeildar Hauka Vísir/Stefán

Það styttist í að knatt­spyrnu­fólk framtíðarinnar leiki listir sínar inn í nýju knatt­húsi Hauka sem verður að teljast eitt það full­komnasta hér á landi. Húsið verður vígt eftir aðeins nokkra daga og verður al­gjör bylting í starfi knatt­spyrnu­deildar félagsins og sögn formannsins.

„Þetta er frábær breyting og í raun og veru bylting fyrir okkar starf í knatt­spyrnu­deild Hauka. Það eru bara gríðar­lega spennandi tímar og tökum náttúru­lega við þessu húsi fullir þakk­læti og munum virki­lega láta verkin tala hérna með góðri fram­kvæmd,“ segir Brynjar Viggós­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar Hauka.

Húsið er í fullri stærð með lög­legan völl fyrir efstu deild hér á landi, loft­hæð mikil, framúr­skarandi náttúru­leg birta og við bætist svo áhorf­endastúka sem mun hýsa hátt upp í þúsund manns.

Þetta hús, hvað mun það gera fyrir ykkar starf í knatt­spyrnu­deild Hauka?

„Það er margt. Við höfum ein­göngu verið úti hingað til. Núna erum við bráð­lega, eftir viku, komin innan­dyra. Við munum ná fram miklu meiri gæðum og nýtingu á okkar svæði fyrir alla okkar iðk­endur, alveg frá þeim yngstu upp í meistara­flokka. Við munum ná fram miklum gæðum á okkar æfingum með okkar frábæra þjálfara­t­eymi og okkar frábæra starf.

Þetta gefur okkur gríðar­legan sveigjan­leika og við getum fært okkur undir þak loksins. Þessu fylgja fullt af tækifærum, þetta er bylting. En við eigum einnig eftir að læra fullt inn á ýmsa hluti. Við erum hérna í hverfi sem hefur vaxið gríðar­lega hér sunnan við læk. Það er bara þannig að okkar sam­félag er að fá frábæra viðbót sem við höfum beðið lengi eftir.“

Klippa: Glæsilegt knatthús Hauka

„Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur“

Þetta knatt­hús virkar á mann sem hið full­komna hús.

„Við erum þar og hörfum þannig á það. Þess vegna er gríðar­lega mikilvægt að við berum virðingu fyrir því sem að okkur er fengið núna. Þetta er hús sem er til­búið í að spilað verði í því í efstu deild, þó við séum ekki þar núna er stefnan sett þangað. Þetta er gríðar­lega flott hús, eitt það flottast á landinu, ef ekki það flottasta. Það fer eftir því hvern þú spyrð. Síðan eru náttúru­lega margir þættir í þessu. Það eru mikil birtu­skil­yrði hérna inni, mikil náttúru­leg birta sem flæðir inn. Al­gjör­lega frábært hús.“

Frábær viðbót við frábæra aðstöðu íþrótta­félagsins Hauka sem verður að teljast ein sú besta á landinu þegar talað er um bolta­greinar og al­menna líkams­rækt hér á landi. Og það hefur verið spennandi fyrir heima­menn að sjá húsið rísa.

„Hér eru starfandi deildir fyrir körfu­bolta, hand­bolta, fót­bolta, kara­te­deild og stutt yfir í sundið og lengi mætti telja. Fyrir okkur eldra fólkið sem erum farin að stunda hreyfingu án bolta eru líkams­ræktar­stöðvar hérna. Síðan er innan við kíló­metri í ósnortna náttúru. Þetta er ein­stak­lega fal­legt svæði hérna í kringum Ástjörnina og Ásvelli. Hér ertu með lausnir, heildar­lausnir fyrir alla. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Við höfum séð þetta stig frá stigi og maður er næstum því farinn að lauma mynd af húsinu í mynda­al­búm fjöl­skyldunnar þegar að maður sér þessi skref. Þetta hefur gengið ótrú­lega vel“

Titrar af spenningi

Húsið verður form­lega vígt eftir slétta viku.

„Maður eigin­lega bara titrar af spenningi. Æfingar síðan bara form­lega á mánu­deginum þar á eftir. Við erum bara að fara ýta á start takkann og setja þetta allt í gang. Gríðar­lega spennandi.

Al­gengasta spurningin til manns er „hvenær opnar húsið?“ og þar fram eftir götunum. Svo er mikilvægt líka að fara út í veður og vind og þola smá mót­vind. Því lífið er ekki bara dalurinn niður í móti, þetta er mikil brekka og alls konar bar­dagar.ׅ“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×