Enski boltinn

Spilaði leik með sirloin steik í skónum

Valur Páll Eiríksson skrifar
James Collins í leik með Aston Villa.
James Collins í leik með Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images

James Collins, fyrrum varnarmaður Aston Villa og West Ham, hefur greint frá sérkennilegri nálgun á ristarmeiðsli sem plöguðu hann eitt sinn á hans ferli.

Collins lék sem miðvörður og var mikill harðjaxl. Hann hóf ferilinn með Cardiff City en spilaði lengst af með West Ham og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2005 til 2018.

Hann kallaði ekki allt ömmu sína og lét ekki smáræði líkt og brotið bein í fæti koma í veg fyrir að hann spilaði fyrir sitt lið.

„Ég veit ekki hvort þið trúið þessu, en þetta gerðist hundrað prósent. Þetta var þegar ég var hjá Villa og í raun braut á mér ristina. En ég vildi spila sama hvað,“ segir Collins frá í hlaðvarpi Peters Crouch.

„Á föstudegi fyrir þennan tiltekna leik er ég með brotið bein, og læknirinn leggur þetta til. Hann segir „Þú munt halda að ég sé klikkaður, en við ætlum að ná í plastfilmu og festa steik við ristina á þér,“ vitnar Collins í lækni Villa-liðsins á þeim tíma.

„Þetta var til að losa um þrýsting á brotna beinið í ristinni. Svo ég spilaði leik í ensku úrvalsdeildinni með með sirloin steik í skónum mínum. Þetta gat ekki verið fillet, ég hefði ekki komist í skóinn“ segir Collins við mikil hlátrasköll Crouch og Steve Sidwell, sem einnig heldur utan um hlaðvarpið.

Steikin hafi ekki gert mikið til að lina sársauka velska varnarmannsins.

„Steikin hjálpaði mér nákvæmlega ekki neitt. En steikin var hálf elduð í hálfleik því ég svitnaði svo mikið.“

Frásögnina má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×