Fótbolti

Þurfti að eyða 48 tímum í dimmu her­bergi eftir að hún vann Ólympíugullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephanie Labbe með gullið sitt út á velli eftir sigur kanadíska knattspyrnulandsliðsins á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.
Stephanie Labbe með gullið sitt út á velli eftir sigur kanadíska knattspyrnulandsliðsins á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Getty/Naomi Baker

Kanadíska knattspyrnukonan Stephanie Labbé hefur sagt opinberlega frá því sem hún þurfti að ganga í gegnum eftir möguleika stærstu stund sína á fótboltaferlinum. Þar voru engin veisluhöld eða sigurpartý á ferðinni.

Frásögn Labbé er enn eitt dæmi um andlega erfiðleika sem toppíþróttafólk þarf að komast í gegnum á bak við tjöldin og fáir vita um. Alþjóðaleikmannasamtökin fengu hana til að segja sína sögu til að vekja meiri athygli á mikilvægi andlega þáttarins.

Stephanie átti mjög flotta Ólympíuleika í marki Kanada. Hún var frábær í úrslitakeppninni þar sem hún hélt hreinu bæði í átta liða úrslitunum á móti Brasilíu og í undanúrslitunum á móti Bandaríkjunum. Í úrslitaleiknum á móti Svíum fékk hún aðeins tvö mörk á sig í vítakeppninni þar sem hún varði tvö víti frá þeim sænsku.

Það vissu kannski ekki allir að Labbé meiddist í fyrsta leik Ólympíuleikanna og að hún þurfti að spila í gegnum þau meiðsli allt mótið. Hún var því sárþjáð í leikjunum en gat samt spilað.

„Ég hafði enga hugmynd um að þessi meiðsli myndu kalla fram veikleika í andlega þættinum hjá mér. Það var svo mikið adrenalín í gangi og taugakerfið var svo fínstillt þannig að ég náði mér ekki niður á milli leikjanna okkar,“ sagði Stephanie Labbé í fréttatilkynningu frá FIFPRO sem eru alþjóðlegu leikmannasamtökin.

„Það kallaði fram streitu og fjölda kvíðakasta. Þetta varð til þess að ég endaði á því að geta ekki æft á milli leikja frá átta liða úrslitunum fram í úrslitaleikinn. Ég var svo oförvuð,“ sagði Labbé.

Eftir að Kanada vann úrslitaleikinn og Labbé fékk gullið um hálsinn þá bjóst hún við að ná sér loksins niður en svo varð ekki.

„Sama hversu mikið ég vildi slaka á og fagna með félögunum þá get ég ekki náð mér niður. Ég endaði á því að liggja ein í dimmu herbergi í 48 klukkutíma eftir úrslitaleikinn,“ sagði Labbé.

„Allir vildu tala um verðlaunin og reynsluna en mér fannst ég bara vera tóm að innan. Mér fór að líða eins og þessi gullverðlaun væru meira virði en ég sem persóna. Það var upphafið af þessum vítahring fyrir mig,“ sagði Labbé.

„Ég þekki það nú sjálf að það er ekki langt á milli líkamlegrar og andlegrar heilsu. Vandamálið er að það er miklu erfiðara að taka eftir og sýna andlega þáttinn,“ sagði Labbé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×